144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hafa komið ágætlega fram síðan þetta frumvarp var lagt fram hversu viðkvæmar bækur eru fyrir verðhækkunum, þ.e. það getur haft veruleg áhrif á kauphegðun hvernig þær eru verðlagðar, hvort fólk kaupir bækur eða ekki, og þar getur munað um mjög lágar fjárhæðir. Þess vegna var ég mjög ánægð þegar hæstv. menntamálaráðherra tók undir þessi sjónarmið hér fyrr í haust og sagði beinlínis að þetta væri ekki æskilegt að gera nema á móti kæmu einhvers konar mótvægisaðgerðir. Ég hef ekki séð neinar mótvægisaðgerðir til að sporna við þessu, til að koma til móts við hækkun á vaski á bækur, ekki eina einustu. Það eina sem ég hef tekið eftir er að hæstv. menntamálaráðherra er horfinn úr umræðunni.