144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:23]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að erfitt sé að taka undir að verið sé að forgangsraða í heilbrigðiskerfið þegar það er afgangur á fjárlögunum og ýmsir skattstofnar sem hann nefnir hér eru ekki nýttir, eins og það sem hann hefur lagt til ásamt fleirum eða ætlar að leggja til, að setja virðisaukaskatt á laxveiði, og hefur hann undirbúið það mál vel sýnist mér.

Hv. þingmanni var tíðrætt um skilvirkni í skattkerfinu og nú hefur mikið verið talað um í sambandi við breytinguna sem verið er að gera á virðisaukaskattinum að það sé mikil nauðsyn á að einfalda kerfið og gera það skilvirkara. Mig langar til að spyrja þingmanninn hvort hann álíti það sáluhjálparatriði í því að virðisaukaskattskerfið verði skilvirkara að neðra þrepið sé 11% og efra þrepið 25,5% en ekki 7% og 24%. Gerir það gæfumuninn í því hvort virðisaukaskattskerfið sé skilvirkt? Svo spyr ég hann einnig hvort hann telji að þessar tillögur einfaldi virðisaukaskattskerfið á einhvern hátt. Það er vissulega búið að taka þarna inn virðisaukaskatt á ferðaþjónustu sem tilheyrir afþreyingu, sem er gott mál, en verður kerfið eitthvað einfaldara eftir þessa breytingu en það er í dag?