144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:32]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar í seinni ræðu minni um þetta mál að fara meðal annars betur ofan í sykurskattinn, en hann hefur verið ræddur hér í dag. Ég er enginn sérstakur talsmaður hærri skatta og á sínum tíma þegar sykurskatturinn var settur á fannst mér að stjórnvöld hefðu mátt horfa til ýmissa annarra aðgerða. Ég leit ekki á framkvæmdina sem lýðheilsuaðgerð því að þetta var ekki svo há skattlagning, þetta var bara skattlagning í sjálfu sér. En sykurskatturinn skilar hátt í 3 milljörðum á ári ef ég skil rétt og það munar um minna.

Það er svolítið sérstakt að ætla að hækka skatta á matvæli almennt en lækka sykurskattinn á sama tíma. Í ljósi þess að þeir efnaminni virðast borða óhollari mat hef ég jafnvel fengið þær athugasemdir frá fólki og sumum félögum mínum á þingi að ef maður tali fyrir því að sykurskatturinn sé áfram á þá sé maður í raun að gera efnaminna fólki erfitt fyrir. Mig langar til að lesa aðeins upp úr Fréttablaðinu í dag, með leyfi hæstv. forseta:

„Tengsl efnahagsþrenginga og hollustu: Borðuðu óhollari mat en þeir efnameiri. Fólk sem átti erfitt með að ná endum saman árin 2010–2011 borðaði óhollari mat en þeir efnameiri. Efnaminni neyttu minna af grænmeti, ávöxtum og grófu brauði og drukku meira af sykruðum gosdrykkjum. […] Þetta kemur fram í frétt á vef landlæknis þar sem vitnað er í grein í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. Þar eru bornar saman niðurstöður úr tveimur síðustu landskönnunum á mataræði, árin 2002 og 2010–2011, og könnuð tengsl hollustu fæðisins við erfiðleika fólks við að ná endum saman“

Ég á eftir að lesa þessa grein í Læknablaðinu en mun gera það. Mér varð tíðrætt um það í fyrri ræðu að við tækjum oft ákvarðanir án þess að við hefðum gögn til að byggja ákvarðanatökuna á. Mér finnst það skipta mjög miklu máli ef rannsóknir sýna að hinir efnaminni borða óhollari mat. Hvernig ætlum við að bregðast við því? Ætlum við þá að hækka skatt á mat og lækka álögur á óhollari mat? Það finnst mér vera mjög öfugsnúið.

Það er líka annað sem mig langar að koma inn á. Rætt var um sykurskattinn áðan. Ég hlustaði á umræðurnar og andsvör við ræðu hv. þm. Péturs Blöndals. Talað var um forvarnir og að við ættum með öðrum leiðum að reyna að minnka sykurneyslu, en staðreyndin er sú í dag að sykur í matvörum er ekkert eins og tóbak. Tóbak er mjög vandlega merkt. Það er falið og aðgangur að því er erfiður og þegar ég kaupi mér sígarettupakka eru upplýsingar utan á pakkanum um að tóbak sé vont fyrir heilsuna. Þegar fólk fer út í búð og kaupir matvöru geta fæstir lesið út úr þeim upplýsingum sem eru gefnar á umbúðunum um hversu mikill sykur er í fæðunni. Það er ekki á allra færi, það er töluvert flókið. Það þarf að rýna í innihaldslýsingar og reyna að sjá hvar sykur er á innihaldslýsingunni Það þarf að rýna í kolvetni, þetta er gefið upp í prósentum og hlutföllum. Við í Bjartri framtíð höfum lagt fram þingsályktunartillögu sem gengur út á það að við merkjum matvæli þannig að allir skilji, ekki bara einhverjir sérfræðingar í næringarfræði, þar sem gefnir eru litir, grænt, gult og rautt. Vörur sem innihalda mikinn sykur væru merktar með rauðu ljósi, rauðu merki. Ég á mjög erfitt með að skilja af hverju merkingar á matvælum eru þannig að aðeins hinir fróðustu og lærðustu geta klórað sig fram úr upplýsingunum. Ef við teljum á annað borð að merkja eigi matvæli og upplýsingarnar eigi að vera aðgengilegar þá verða þær að vera þannig að allir skilji. Þannig er það ekki í dag. Mér finnst það vera verkefni stjórnvalda að fara í það mál.

Mig langar líka til að tala um virðisaukaskattsbreytingarnar þar sem verið er að hækka neðra þrepið og færa þrepin tvö nær hvort öðru af því að það eykur skilvirkni og minnkar undanskot, er sagt. Ég átta mig ekki almennilega á hvað er til í því, hvort það breytir einhverju hvort virðisaukaskatturinn sé 7% eða 11%, en hvernig væri bara að efla skatteftirlit? Við göngum út frá því að ef við værum með fjögur skattþrep þá væri allt í skattundanskotum og ef þau væru tvö væri mikið um þau, ef þrepið væri aðeins eitt væri minnst um þau. Ein hugmynd er að hafa eitt virðisaukaskattsþrep. En á meðan við erum með tvö skattþrep sé ég ekki muninn á því hvort þau eru 7% og 25,5% eða 7 og 24 eða 11 og 24,5%. Ef við teljum að skattsvik séu stunduð þá setjum við meiri peninga og meira fé í embætti skattrannsóknarstjóra. Mér finnst það liggja í augum uppi. Gott ef það var ekki frekar dregið úr fjárheimildum til skattrannsóknarstjóra í fjárlagafrumvarpinu.

Ég vil ítreka það sem ég hef haldið fram að það er ekki gott að fara í svona breytingar öðruvísi en að kannað sé ofan í kjölinn hvaða áhrif þær hafa. Við höfum mjög litlar upplýsingar um neytendahegðun. Við höfum ekki hugmynd um hvaða áhrif t.d. hækkun virðisaukaskatts á bókum hefur. Hvaða áhrif hefur það á millitekjufólk, hvaða áhrif hefur það á lágtekjufólk? Mér finnst óábyrgt að fara í aðgerðir sem þessar eða hvaða aðgerðir sem er öðruvísi en að áhrifin hafi verið metin. Við erum nýbúin að fara í gegnum mikla umræðu um skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarinnar og það var eiginlega hið sama uppi á teningnum þar. Hæstv. fjármálaráðherra getur ekki svarað því nákvæmlega hvernig skiptingin verður fyrr en eftir einhvern tíma, þannig að menn fara í aðgerðir án þess að vita raunverulega hver niðurstaðan verður. Þegar við erum að víla og díla með almannafé, skattfé, og fara í aðgerðir, veita peninga út í kerfið, þá hljótum við að vilja að peningarnir lendi á réttum stöðum, hefði ég haldið.

Mér finnst liggja í augum uppi að ýmis hollari matur sem er nú þegar dýr eigi að vera ódýrari. Sykur er tiltölulega ódýr vara þannig að það er ástæða fyrir því að meira er af sykri í sumum vörum en t.d. ávöxtum eða hnetum eða dýrari vörum. Mér finnst það liggja í augum uppi að verðið hafi áhrif á neysluhegðun að einhverju leyti. Það eru til vörur í dag sem margir veigra sér við að kaupa, segjum bara ferskt salat eins og klettakál eða furuhnetur eða eitthvað sem við getum tala um sem lúxusvörur. Ég er ekki viss um að hinir efnaminni muni yfir höfuð geta leyft sér að kaupa slíkan mat. Mér finnst það ábyrgðarhluti. Ég er þeirrar skoðunar þegar rætt er um matvæli á Íslandi, á landi þar sem matvælaverð verður eflaust alltaf óhjákvæmilega hærra en annars staðar vegna legu landsins, dreifbýlis, lítils markaðar og þar fram eftir götunum, að það sé réttlætanlegt að hafa mjög lágan virðisaukaskatt á mat.

Ég hvet hæstv. ríkisstjórn og meiri hlutann til að lesa þessa grein í nýjasta tölublaði Læknablaðsins áður en þeir greiða atkvæði um þetta mál.