144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:43]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Á meðan hv. þingmaður talaði var ég að reyna að finna frétt sem ég las á netinu í morgun um skaðsemi sykurs. Ég fann hana ekki aftur en hún er svo sem bara ein af mörgum. Það er alveg ljóst að sykurneysla er mjög óholl og mér finnst í rauninni sönnunargögnin hlaðast upp hvað það varðar. Þetta veldur líka gríðarlegum kostnaði í heilbrigðiskerfinu þannig að ég held að það sé rétt að leita allra leiða til að minnka sykurneyslu. Góðar merkingar eru ein leið og margar þjóðir hafa tekið upp á því að vera með sykurskatt. Ég held að hann þurfi að vera þannig að hann bíti. Ég mundi ekki endilega vilja fara þangað alveg strax en mér finnst ekki að það eigi að afnema sykurskattinn núna. Þetta eru þrátt fyrir allt 3 milljarðar í ríkissjóð. Það veitir ekki af, hann er mjög skuldsettur. Það að skattleggja sykur finnst mér réttlætanlegt en ég held að það þyrfti að fara í svolítið gagngerar aðgerðir. Ég man eftir að í Danmörku var farið í átak og þar gekk neytendamálaráðherrann, Danir hafa slíkan ráðherra, fram fyrir skjöldu og sagði: Börn og unglingar eiga ekki að drekka meira en hálfan lítra af gosi á viku. Það er mjög sjaldgæft að við heyrum einhverjar svona tölur á Íslandi. Það er alltaf talað um að borða í hófi og varast mikla sykurneyslu. Mér finnst stundum vanta í þessari baráttu að við segjum hvað er mikil sykurneysla, að við upplýsum fólk um það. Þegar það tekur morgunkornið ætti það að sjá rautt fyrir sykur, að það væri svo og svo mikill sykur í því morgunkorni og fólk gæti ákveðið að fara yfir í það sem er með grænt merki eða appelsínugult. Sama er með salt og meiri óhollustu þannig að ég er sammála hv. þingmanni í því að þetta er nokkuð sem við eigum að berjast í. Það er til mikils að vinna að minnka sykurneysluna. Þessir 3 milljarðar eru ekki það hár skattur á vörunni, en þessir 3 milljarðar ættu þá að fara í verkefni sem snúa að því að minnka sykurneyslu vegna þess að það er gríðarlegur kostnaður af afleiðingum hennar.