144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:45]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að við hv. þingmaður erum sammála um að það er óheppilegt að réttlæta skattahækkun á grænmeti og ávöxtum með lækkun á sköttum á sykri. Hún ræddi tvö virðisaukaskattsþrep og skilvirkni skattkerfa og ég er algjörlega sammála þeim sem hvetja til skilvirkni skattkerfa. Skattkerfi hafa þann megintilgang að afla tekna en þau hafa líka þann tilgang að jafna tekjur og geta verið til neyslustýringar eins og ég fór yfir í fyrra andsvari mínu. Þá kemur að virðisaukaskattskerfinu. Ýmsir hafa bent á að fræðilega séð sé það kerfi ekki heppilegt til tekjujöfnunar en það er ekki boðorð sem hefur verið hoggið í stein að sé ein besta leiðin. Núna er ekki bara verið að hækka lægra þrepið umtalsvert meira en það sem hærra þrepið er lækkað heldur er líka boðuð frekari nálgun þessara tveggja þrepa. Sumar vörur lækka í verði en matvara og drykkur hækkar í verði og það er augljóst ef tölfræði er skoðuð, m.a. frá Hagstofu Íslands, að þeim mun lægri tekjur sem fólk er með þeim mun hærra hlutfall ráðstöfunartekna fer í að kaupa mat. Þess vegna spyr ég þingmanninn, sem ég veit að er hlynnt skilvirkni í skattkerfum en hafði áhyggjur af þessu, hvort hún telji réttlætanlegt að auka ójöfnuð í samfélagi með meintri aukinni skilvirkni (Forseti hringir.) og hvort hún telji fyrirliggjandi upplýsingar samhliða þessu um einhverja frekari skilvirkni.