144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:48]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, ég tek undir það sem hv. þingmaður segir. Ég hef ekkert séð sem bendir til þess að allt í einu heyri skattsvik sögunni til og allt verði einhvern veginn miklu betra þó að lægra þrepið hækki í 11%. Ég er samt alveg fylgjandi því að einfalda kerfið og jafnvel væri hugmynd að hafa eitt virðisaukaskattsþrep eins og Danir eru til dæmis með. Þeir eru svo með aðrar mótvægisaðgerðir. Ég sé ekki einu sinni að við séum að fara þangað og það er eitt af því sem við höfum gagnrýnt og spurt: Hvert er svo næsta skref?

Ég held líka að um þetta mál hefði verið hægt að ná sátt þvert á flokka og út í þjóðfélagið. Mér hefði fundist þess virði að reyna. Á Norðurlöndunum skiptast svo oft á stjórnir að menn eru kannski frekar í að ná sátt um mál en hér. Hættan að sú að ef ný stjórn tekur við breyti hún til baka. Við virðumst vera svolítið föst í þessu stjórnarmynstri Sjálfstæðisflokkur/Framsóknarflokkur einhverra hluta vegna og ég velti fyrir mér hvað gerist ef nýir flokkar komast að á næsta kjörtímabili. Munu þeir þá fara að hringla í kerfinu? Er ekki þess virði að reyna að ná einhverri sátt um þetta þannig að við segjum að svona viljum við sjá virðisaukaskattskerfið þróast, svona ætlum við að hafa þetta næstu 20–30 árin? Er það ekki betra en að vera að taka ákvarðanir sem í rauninni engin sátt er um? Það er ekkert langt síðan virðisaukaskattur á matvæli var lækkaður. Ætli það sé ekki mesta óskilvirknin í þessu kerfi að menn taka ákvarðanir hægri vinstri og stundum allt að því geðþóttaákvarðanir? Ég hef gagnrýnt það að við sjáum ekki fyrir endann á þessu. Ég skil það ekki þannig að við séum að stefna að einu þrepi og ég hef ekki fengið svör við því.