144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:00]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir það í ræðunni hvernig sú stefna sem greina má af verkum þessarar ríkisstjórnar virðist helst vera sú að taka til baka það sem gert var á síðasta kjörtímabili. Svo virðast menn með einhverjum hætti samt þurfa að leiðrétta sig eftir að hafa gert þær breytingar. Gott dæmi um það er virðisaukaskatturinn á ferðaþjónustuna þar sem fyrrverandi ríkisstjórn lagði til að gistingin yrði færð upp í 14% og þá með löngum aðlögunartíma en núna er hækkun upp í 11% skellt á alla ferðaþjónustuna, þ.e. gistinguna og líka fleiri aðila, með engum fyrirvara.

Þetta er eitt, en svo langar mig að spyrja hv. þingmann um annað. Í lok ræðu sinnar gerði hún hinar ýmsu mótvægisaðgerðir að umtalsefni. Ég held að núna sé verið að slá Íslandsmet í alls kyns mótvægisaðgerðum þar sem þessi ríkisstjórn þarf að vera með mótvægisaðgerðir við nánast aðra hverja aðgerð sem hún ræðst í. Hefur fjárlaganefnd tekið þessar mótvægisaðgerðir saman? Ég held að það væri áhugavert fyrir okkur sem erum áhugamenn um einfaldleika kerfisins og gagnsæi að sjá teknar saman allar þessar mótvægisaðgerðir og hvaða áhrif þær hafa á kerfið, þ.e. hvort menn séu byrjaðar að flækja það um of með öllum þessum mótvægisaðgerðum og sömuleiðis hvort menn hafi tekið saman fjárhagslegt umfang þessara mótvægisaðgerða og áhrif á heimilin og atvinnulífið í landinu.