144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að það er eiginlega orðin regla fremur en undantekning að ríkisstjórnin þurfi að koma fram með mótvægisaðgerð gegn flestum aðgerðum sínum er maður sjálfkrafa farinn að fletta aftast til að finna hvaða mótvægisaðgerðir þurfi að ráðast í með þeim aðgerðum sem verið er að kynna. Þetta getur engan veginn leitt til þess að menn séu að einfalda nokkurn skapaðan hlut. Það er það sem veldur mér áhyggjum, þ.e. að menn búa til einhverjar umbúðir þar sem menn segjast vera að einfalda eitthvað — bara orðið sjálft, einfalda, er sett sem stimpill á aðgerðir — en þegar á hólminn er komið fylgja svo margar mótvægisaðgerðir að einfaldleikinn er löngu farinn út í veður og vind. Ég held að það væri ferðalagsins virði fyrir fjárlaganefnd sem þarf að hafa aðhald með rekstri hins opinbera að fara sérstaklega í gegnum þetta vegna þess að þessu getur fylgt töluverður kostnaður.

Ég vil nefna annað. Í þessari umræðu hafa menn haft miklar áhyggjur af bóksölu og matvöru þegar neðra þrepið í virðisaukaskattinum verður hækkað en það er um fleira að ræða, aðra afþreyingu eins og kvikmyndir, kvikmyndahús. Virðisaukaskattur verður lagður á þá afþreyingu alla saman. Hefur hv. þingmaður eitthvað kynnt sér þá hlið mála og hvort menn hafi áhyggjur af því að hækkunin geti haft áhrif á aðsókn í kvikmyndahús eða aðsókn á íslenskar bíómyndir?