144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015 frá meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Nefndarálitið er að finna á þskj. 617 fyrir þá sem vilja til dæmis kynna sér nánar hvaða gesti nefndin fékk á sinn fund og hvaða umsagnir bárust.

Það bárust umsagnir frá hv. velferðarnefnd, meiri hluta og minna hluta, og nefndin tók þær vel til greina. Hún skoðaði sérstaklega þær áhyggjur sem meiri hlutinn hafði af styttingu bótatíma atvinnuleysis og eins breytingu á Framkvæmdasjóði aldraðra, þ.e. að nýta fjármuni sjóðsins til reksturs hjúkrunarheimila sem er því miður orðin lenska til fjölda ára. Nefndin skoðaði það. Hún fór líka í yfir færslu S-merktra og leyfisskyldra lyfja sem er líka getið í umsögn meiri hluta hv. velferðarnefndar. Síðan fór hún í gegnum umsögn minni hlutans sem hafði áhyggjur af því að fella ætti niður framlög til starfsendurhæfingarsjóða. Tekið var á því að einhverju leyti í þeirri atkvæðagreiðslu sem við stóðum fyrir í gær um fjárlögin. Eins fór nefndin í gegnum yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga, eins og kemur fram í umsögninni að menn hafi áhyggjur af. Eins og kom fram í áliti meiri hlutans þá hefur hv. minni hluti einnig áhyggjur af Framkvæmdasjóði aldraða. Eins hefur hann áhyggjur af atvinnuleysistryggingum. Minni hlutinn ræðir líka um greiðsluþátttöku almennra lyfja og vill hækka þær viðmiðunarfjárhæðir. Þá ræðir minni hlutinn um greiðsluþátttöku S-merktra lyfja. Allt þetta ræddi hv. efnahags- og viðskiptanefnd á fundum sínum og fór í gegnum.

Ný þjóðhagsspá sem birtist fyrir nokkrum dögum bendir til dálítilla breytinga. Verg landsframleiðsla verður minni árið 2014 eða 2,7% í staðinn fyrir 3,1%, en hún verður auk þess minni á næsta ári, 3,3% í staðinn fyrir 3,4%, og óbreytt árið 2016, þ.e. 2,9%. Þetta eru ansi góðar hagvaxtartölur og hagvaxtarspár og ég held að við getum öll glaðst yfir því.

Það er fleira sem hefur komið fram. Vöxtur einkaneyslu verður svipaður og gert var ráð fyrir en meiri árið 2015, í staðinn fyrir 3,7% sem áður var spáð verður hann 4%. Það sem veldur ákveðnum áhyggjum er það að fjármunamyndun, þ.e. fjárfesting, verður minni á árinu 2014, eða um 14% í staðinn fyrir 16,9%, og það er verulegt áhyggjuefni sem við þurfum að skoða nákvæmlega hvað veldur.

Svo eru stórir óvissuþættir sem við höfum rætt hérna mjög mikið á undanförnum dögum. Það eru kjarasamningar, sérstaklega lækna. Hv. þingmenn hafa verið óþreyttir við það að hvetja lækna til dáða og að semja eigi við þá, en auðvitað þurfa menn að gera sér grein fyrir því að það mun hafa áhrif á alla aðra starfsmenn spítalans. Ég geri ekki ráð fyrir að nokkrum einasta manni detti í hug að hækka laun lækna um 30–40%, um 300–400 þúsund á mánuði, og gera ekkert fyrir lægst launaða fólkið á sama tíma. Það held ég að gangi ekki upp. Ef þeir fá hækkun sem nemur launum lágtekjufólksins þá gengur það ekki upp. Ef það verður almenn hækkun í heilbrigðiskerfinu, á spítölunum, þá fer það líka yfir til kennara og annarra opinberra starfsmanna. Það er ekki spurning, frú forseti. Þá gef ég ekki mikið fyrir kjarasamningana í janúar milli ASÍ og SA, þeir munu ekki sætta sig við einhverjar lágar tölu þegar búið er að hleypa þessu öllu upp. Þetta finnst mér að hv. þingmenn eigi að skoða og átta sig á og vita. Þetta er einn stór óvissuþáttur í spá Hagstofunnar, hver verði þróun launa, því að ef laun fara úr böndunum þá breytast allar forsendur um verðbólgu.

Hér er getið um batnandi afkomu ríkissjóðs sem tilkynnt var 26. nóvember á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Við ræddum líka um frestun á framlagi ríkissjóðs til starfsendurhæfingarsjóða. Það er þannig að VIRK starfsendurhæfingarsjóður, sem er eini starfandi starfsendurhæfingarsjóðurinn, er með mjög mikið eigið fé og kemst af í nokkurn tíma. Ef hins vegar tekst að koma á starfsgetumati, sem er verið að vinna að í nefnd sem ég stýri, þá mun aldeilis þurfa á þeim fjármunum að halda hjá VIRK og þá getur starfsendurhæfingin farið í gang af fullum krafti. Í fjárlögunum sem við samþykktum í gær var samþykkt aukaframlag upp á 200 milljónir í þennan þátt starfsendurhæfingarsjóða til að sýna lit og mæta því sem mun koma þegar búið verður að samþykkja starfsgetumatið.

Síðan ræddi nefndin töluvert um framlag til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Nú er það þannig að Alþingi skyldar alla landsmenn til að borga í lífeyrissjóð sem er háður starfsstétt eða starfshóp. Menn geta ekki valið sér lífeyrissjóð, það er ekki þannig á Íslandi. Það er mjög undarlegt að skylda mann til að borga inn í lífeyrissjóð fyrir starfsgrein með miklar örorkulíkur og hann fái þá lakari ellilífeyri fyrir bragðið. Mér finnst eðlilegt að atvinnulífið greiði þá mismunandi iðgjald eftir því hvað örorkubyrðin er mikil. Það hefur ekki náðst fram enn þá. Þannig verður unnið til framtíðar, að atvinnulífið greiði þessa byrði. Eftir stendur að það þarf að ræða um hvernig við leysum vanda fortíðar. Það er hluti af þessum vanda. Við samþykktum sem sagt í gær í atkvæðagreiðslu um fjárlögin að setja 344 milljónir í þetta dæmi. Það mætti eflaust vera meira að mati margra en þetta tekur mið af þröngri stöðu ríkissjóðs þó að hún sé betri en sýndist.

Síðan var rætt um framlengingu á vaxtabótum og sérstökum vaxtabótum. Það er verið að vinna að uppbyggingu nýs húsnæðiskerfis þar sem jöfnuð verður staða leigjenda og annarra við þá sem eru húskaupendur eða húsbyggjendur. Horfið verður frá vaxtabótum og húsaleigubótum og teknar upp heimilisbætur sem taka eiga mið af fjölskyldustærð. Í gær samþykktum við 400 millj. kr. framlag til sveitarfélaganna til þess að veita leigjendum stuðning þar til þetta nýja kerfi tekur gildi.

Meiri hlutinn ræddi nokkuð um framlengingu ákvæðis til bráðabirgða í lögum um málefni aldraðra, sem er þannig að hver einasti landsmaður borgar ákveðna upphæð, tæplega 10 þús. kr., til Framkvæmdasjóðs aldraðra óháð tekjum að mestu leyti. Þeir sem eru með mjög lágar tekjur sleppa reyndar við þetta. Þessi jafn skattur á háar tekjur og lágar nákvæmlega eins og útvarpsgjaldið og er mjög ófélagslegur skattur. Ég hef lengi viljað sjá hann hverfa og að þetta gjald yrði borgað með öðrum hætti, enda stöndum við frammi fyrir vandamálum í málefnum aldraðra og Framkvæmdasjóðs þar sem þarf að byggja hjúkrunarheimili, sem verða tröllvaxin á næstu 10–15 árum.

Nokkuð mikið var rætt um lengd bótatímabils atvinnuleysisbóta eins og kom fram í þeim umsögnum frá velferðarnefnd sem ég gat um og hjá mörgum gestum og sitt sýndist hverjum. Nú minnkar atvinnuleysi mjög hratt. Það er mjög jákvætt, frú forseti. Við ættum að gleðjast yfir því vegna þess að atvinnuleysi er eitt mesta böl sem fólk lendir í og til skaða fyrir alla, einstaklinginn, þjóðfélagið, fyrirtækin og atvinnulífið. Við eigum að gleðjast yfir því að atvinnuleysi fari minnkandi og minnki hraðar en menn gerðu ráð fyrir og stefni hraðbyri í að verða svipað og um áramótin 2004/2005. Í ljósi þess telja menn óeðlilegt að hafa bótatímabilið svona langt, sérstaklega þar sem það er alla jafna styttra annars staðar á Norðurlöndum.

Nokkuð var rætt um S-merktu lyfin. Þá er spurningin um ákveðið samræmi á milli þeirra sem taka lyf sem eru líka dýr og taka þátt í að greiða þau á meðan S-merktu lyfin eru algjörlega ókeypis. Það getur komið upp ákveðið misræmi milli einstaklinga eftir því hvaða sjúkdóma þeir eru með, hvort þeir eru með gigtarsjúkdóma eða krabbameinssjúkdóma eða eitthvað slíkt. Annar borgar töluvert mikið eða upp að hámarkinu í greiðsluþátttökukerfi lyfja á meðan hinn borgar ekkert fyrir viðkomandi lyf, en hann borgar náttúrlega önnur lyf líka þannig að þetta kemur ekki eins illa niður á einstaklingnum og sýnist, auk þess er hámark á lyfjakostnaði um 70 þús. kr. á tólf mánaða tímabili sem þessi lyf mundu falla undir eins og önnur lyf sem fólk kaupir.

Síðan var gerð ákveðin hreinsun í tollskrárnúmerum. Ég ætla nú ekki að fara í gegnum þann kafla, það yrði afskaplega leiðinleg upptalning og upplestur, en er sem sagt í þessu nefndaráliti. Sumir tollflokkar hafa hreinlega fallið út og eru ekki lengur til. Þá er náttúrlega eðlilegt að láta þá falla niður. Á öðrum tollflokkum hafa orðið breytingar og hér er tekið á því. Það er ákveðin tollflokkahreinsun sem kemur fram í heilum kafla í þessu nefndaráliti.

Svo ræddi nefndin nokkuð um stöðu Fjármálaeftirlitsins sem kom með tillögur að breytingum þannig að fjárhagsáætlun Fjármálaeftirlitsins stæðist. Nefndin gerir tillögur Fjármálaeftirlitsins að sínum um að breyta eins og oft áður, eiginlega árlega, álögum á viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki og aðra sem standa undir rekstri þess.

Þá var rætt líka um gjalddaga aðflutningsgjalda. Eftir hrun var byrjað á því að dreifa aðflutningsgjöldum á tvo gjalddaga og það er sem sagt framlengt núna en auðvitað þurfa menn einhvern tíma að skoða það að hverfa frá þessu.

Nefndin ræddi nokkuð um rafbíla þó að það sé nú ekki í frumvarpinu sjálfu. Af þeim hefur verið töluvert mikil eftirgjöf skatta og tolla, eiginlega þannig að af þeim eru ekki borgaðir skattar. Það eru uppi sjónarmið um hvort það sé jákvætt eða neikvætt. Þessir bílar eru yfirleitt nokkuð dýrir en þeir verða ódýrari þegar ríkið tekur ekki af þeim virðisaukaskatt, toll eða neitt. Hins vegar kosta þeir ekki innflutning á olíu, sem er mjög dýr fyrir þjóðfélagið í gjaldeyri. Þeir nota auk þess innlenda orku, raforku sem er græn orka eða hrein orka. Nefndin hefur því rætt um að ívilnanir vegna rafbíla verði framlengdar að hluta eða öllu leyti og verður það skoðað á milli 2. og 3. umr. Ég legg til, frú forseti, að frumvarpið gangi til nefndarinnar á milli 2. og 3. umr.

Þá var rætt nokkuð um lækkun þaks vegna undanþágu vörugjalda af bílaleigubílum. Það hefur verið rætt ansi mikið bæði utan og innan funda nefndarinnar. Það er dálítið undarlegt ákvæði að bílaleigur fái mikla eftirgjöf eða borgi mikið lægri vörugjöld af bílum við innflutning en aðrir og hefur gert það að verkum að nánast helmingur af innflutningi hvers árs eru bílaleigubílar, ekki til heimilisnota. Síðan eru þeir seldir 18 mánuðum seinna í samkeppni við aðra bíla sem einstaklingar höfðu keypt með miklu hærri vörugjöldum og þannig geta bílaleigurnar hugsanlega selt bílana jafn dýra eða jafnvel dýrari en þær keyptu þá inn og haft af því hagnað. Það er afskaplega óeðlilegt, frú forseti, að við höfum þetta kerfi svona. Ég var mikið á móti því á sínum tíma þegar það var tekið upp en það var samt ákveðið að gera það og nú er sem sagt verið að þrepa það niður með því að lækka upphæðina úr 1 milljón niður í 500 þúsund. Þetta hefur mikið verið rætt innan nefndarinnar og ég hugsa að þetta verði rætt þegar nefndin tekur frumvarpið til sín milli 2. og 3. umr. en ég veit ekki hver niðurstaðan af þeirri umræðu verður og lofa engu um það.

Þetta er nefndarálit meiri hlutans sem birtist, eins og ég gat um, á þskj. 617. Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, formaður, Pétur H. Blöndal, framsögumaður, Willum Þór Þórsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason.