144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ætli ég hafi það ekki eins og framsögumaður meiri hlutans að ég ræði aðeins um nefndarálit hans til endurgjalds því að hv. þm. Pétur Blöndal ræddi dálítið um nefndarálit minni hlutans. Þó ætla ég í aðalatriðum að gera grein fyrir sjónarmiðum okkar sem stöndum að minni hlutanum, (Gripið fram í: … velferðarnefndar.) já, og velferðarnefndar reyndar. Ásamt mér (Gripið fram í.) standa hv. þingmenn Árni Páll Árnason og Guðmundur Steingrímsson að nefndaráliti minni hlutans.

Meiri hlutinn byrjar á því í nefndaráliti sínu að fjalla um þjóðhagsspá fyrir árið 2015, þá þjóðhagsspá sem Hagstofan birti uppfærða 14. nóvember sl., og notar það til vissrar undirbyggingar því að horfurnar séu bærilegar og allt komi þetta ágætlega út. Vandinn er hins vegar sá að örfáum dögum síðar kom ársfjórðungsuppgjör Hagstofunnar á þriðja ársfjórðungi fram sem olli auðvitað miklum vonbrigðum, þ.e. samdráttur í landsframleiðslu upp á 0,2% og þar með annar ársfjórðungurinn á þessu ári og tveir af þremur þar sem um samdrátt í landsframleiðslu er að ræða og hagvöxtur á árinu þá aðeins 0,5%, á fyrstu níu mánuðum ársins. Þar af leiðandi þarf að ganga alveg feiknarlega vel á fjórða ársfjórðungi ef samt sem áður á að nást 2,7% hagvöxtur en það er það sem spáin byggir á. Það er það sem menn byggja á ásamt áætlun um næsta ár þegar menn gefa sér þær þjóðhagsforsendur sem afgreiðsla fjárlagafrumvarpsins og þessi frumvörp því tengd eru að fara í gegn. Meiri hlutinn hefði getað verið heppnari að þessu leyti með dagsetningar og kannski bara átt að draga aðeins úr orðalaginu þegar kom að því að fagna þessum horfum.

Það væri líka ástæða til að ræða inntak þessara frumvarpa, bæði virðisauka- og vöruskattsfrumvarpsins, sem var á dagskrá áðan, og svo núna þessara forsendna fjárlagafrumvarps, m.a. í ljósi þeirra þjóðhagsupplýsinga sem eru að koma fram. Hv. þm. Pétur Blöndal hélt hér margar ræðurnar um ágæti þess að vörugjald félli niður og tíundaði að hann hefði aldrei komið inn á heimili þar sem ekki væri ísskápur og sjónvarp, og að einhverjir borguðu fyrir þessa ísskápa og þessi sjónvörp. Já, og það er auðvitað rétt að vörur af því tagi lækka í verði með niðurfellingu vörugjalds á sama tíma og hollustuvara og matur hækkar. En hvar er þessi vara framleidd? Jú, það vill svo til að þegar maður horfir á þetta með tiltekin gleraugu á nefinu, sem sagt út frá gjaldeyrisjöfnuði og greiðslujöfnuði þjóðarbúsins, eru þessar breytingar allar í þá átt að þær eru líklegar til að ýta undir sölu á innfluttri vöru en frekar á kostnað þess sem framleitt er innan lands. Það liggur alveg fyrir.

Er það gott innlegg í þá þróun mála að vöruskiptajöfnuðurinn er orðinn neikvæður á fleiri mánuðum en færri á þessu ári, að viðskiptajöfnuðurinn er að sakka niður og spáin er um að hann gufi að mestu leyti upp, því miður, á næstu árum? Það eru ekki góðar fréttir. Og það að vöruskiptajöfnuðurinn sem slíkur sé orðinn neikvæður er grafalvarlegt. Hvar værum við stödd ef þjónustujöfnuðurinn hífði hann ekki jafn myndarlega upp og raun ber vitni? Hinn gríðarlegi vöxtur ferðaþjónustunnar og kortavelta erlendra ferðamanna hér í hagkerfinu ber uppi jöfnuðinn af vöru- og þjónustuviðskiptum. Síðan er fjármagnsjöfnuðurinn neikvæður og þar með er viðskiptajöfnuðurinn í heild orðinn mjög veikur.

Ríkisstjórnin er ekkert að hugsa um þetta. Hún heldur hér hólræður um hvað það sé gott að ýmiss konar innfluttur varningur muni nú lækka í verði. Æ, að vísu hækkar mjólkin og grænmetið og fiskurinn og allt þetta á móti en það er ekki áhyggjuefni. Nei, nei, nei. Mætti þetta verða til þess að ýta aðeins undir einkaneyslu, sérstaklega í formi aukins innflutnings, gleður það hv. þingmenn stjórnarliðsins svoleiðis að þeir ná varla að sofna á kvöldin, kætin er svo mikil miðað við þær ræður sem þeir hafa hér flutt.

Ég ætla að leyfa mér að lýsa af þessu ákveðnum áhyggjum. Það þarf einhver að gera það. Einhver vitfirrtasta umræðan sem var á Íslandi á árunum fyrir hrun — nú veit ég að það lokast öll skilningarvit á ýmsum því að það má ekki nefna þessi ár — var umræðan um viðskiptahallann. Það var alveg sama hversu oft maður reyndi að benda á þá háskalegu stöðu sem við vorum komin í þegar við eyddum svoleiðis bullandi um efni fram ár eftir ár eftir ár, nei, það hafði enginn áhyggjur af því. Það var góðæri! Menn fundu upp sérstakt hugtak, ég ætla nú ekki að bera það upp á hv. þm. Pétur Blöndal, en einhverjir fundu upp hugtakið góðkynjaður viðskiptahalli. Á Alþingi voru fluttar ræður um góðkynjaðan viðskiptahalla. Já, já, hann átti ekki að vera svo alvarlegur, nei, t.d. vegna þess að viðskiptahallinn væri að verulegu leyti vegna fjárfestinga og uppbyggingar innviða sem reyndist svo rangt. Þegar maður fór að greina það á árunum 2004–2007 stóðu stóriðjufjárfestingarnar og viðbótarframkvæmd í hagkerfinu aðeins fyrir um einum þriðja af viðskiptahallanum. Restin var bara glórulaus eyðsla umfram efni, innflutningur á amerískum pallbílum eða hvað það var. Og hvernig fór þetta að lokum?

Við skulum þar af leiðandi vera vel á verði ef við förum að sjá sambærilega þróun kræla á sér.

Ég ætla að gera grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frumvarps og athugasemdum okkar við þau og staldra þá fyrst við starfsendurhæfingarsjóðinn. Það er vissulega vel að meiri hlutinn féllst að lokum á að það væri ákaflega óskynsamlegt að ríkið fyrir sitt leyti gæfi samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðina um uppbyggingu starfsendurhæfingar svo gjörsamlega langt nef að leggja 0 kr. af mörkum á næsta ári. Það væri freklegt brot á þó því samkomulagi sem varð um það eftir að aðilar vinnumarkaðarins sjálfir, þ.e. atvinnulífið, fjármögnuðu í upphafi VIRK starfsendurhæfingarsjóðinn. Eftir mjög strembnar viðræður náðist samkomulag um að lífeyrissjóðirnir kæmu þar inn líka og legðu 0,13% af tryggingagjaldsstofni eða ígildi þess inn í sjóðinn með þeim rökum auðvitað að það er stórt hagsmunamál fyrir lífeyrissjóðina að draga úr nýgengi örorku í landinu og kostnaði vegna greiðslu örorkulífeyris. Og kem ég að því síðar þegar að því beinlínis kemur.

Ríkisvaldið var í erfiðri stöðu á þessum árum, að fara að leggja þessa fjármuni til. Þó var það alltaf hugsun aðila að þetta yrði þríhliða samstarf og á spýtunni hékk að einstaklingar utan vinnumarkaðarins gætu fengið þarna þjónustu líka. Eðli málsins samkvæmt gerðu menn þá kröfu á ríkið að það kæmi að greiðslu að minnsta kosti þess hluta kostnaðarins. Á árunum 2011–2012 framlengdu menn samkomulag um að ríkið fengi að bíða með að koma inn með sínar greiðslur og kæmi svo í áföngum inn með þær. Ef ég man rétt átti það að gerast frá og með 2013, 2014 o.s.frv.

Lífeyrissjóðirnir hófu hins vegar að greiða inn þarna fyrir einu eða einu og hálfu ári. Nú ber hins vegar svo við að ríkisstjórnin ætlaði sér að gefa þessu algerlega langt nef og leggja 0 kr. af mörkum. (PHB: En fyrri ríkisstjórn?) Fyrri ríkisstjórn var búin að skuldbinda sig til að koma inn á þessum tímapunkti þannig að fyrsta greiðslan hefði átt að vera í ár í því plani sem gengið var frá síðast á árinu 2012, ef ég man rétt. Við sömdum reyndar um viðbótarfrestun á því sem var rætt upphaflega á árunum 2010 og 2011, en þannig var planið, að ríkið kæmi inn, ef ég man rétt, í þremur skrefum (Gripið fram í.) á árunum þarna á eftir.

Um þetta er þar af leiðandi að segja að það er fagnaðarefni að ríkisstjórnin sá að sér í þessum efnum, eða stjórnarmeirihlutinn, og leggur nú til 200 millj. kr. greiðslu, eingreiðslu í raun og veru því að það er ekki gengið frá neinu um framhaldið á næsta ári og boðar endurskoðun og viðræður um þessa hluti. Það breytir ekki því að það er hætt við að þetta samkomulag gufi upp ef ekki fæst einhver botn í það til lengri framtíðar litið. Það er ekki bara spurningin um að þeir sem að starfsendurhæfingunni standa segi einfaldlega upp eða líti svo á að þeir séu óbundnir af samkomulagi um það að veita þjónustu öðrum en þeim sem eru á vinnumarkaði eða koma af vinnumarkaðnum inn í þá stöðu sem starfsendurhæfingin tekur á, heldur mætti segja mér að lífeyrissjóðirnir færu að verða ansi úfnir yfir því að greiða óskertan sinn hlut þarna inn ef ríkið kemur með ekkert á móti.

Þá er nærtækt, frú forseti, að fara næst í jöfnun örorkubyrði. Ég held að svakalegasti hluti þessa frumvarps, fyrir utan styttingu atvinnuleysisbótatímans, sé það sem var lagt fram í frumvarpinu um að ríkið ætlaði í nokkrum skrefum að hverfa með öllu út úr því að taka þátt í að jafna mismunandi örorkubyrði lífeyrissjóðanna. Það er rosalegt þegar það bætist við að upplýst er að þetta er gert algerlega einhliða án nokkurs samráðs við lífeyrissjóðina, aðila vinnumarkaðarins eða aðra aðila. Og þannig er um fleira í þessu frumvarpi, því miður, eins og VIRK og styttingu atvinnuleysisbótatímans. Við byrjum reyndar á því að gagnrýna það í okkar nefndaráliti að ég held að þessi ríkisstjórn hafi næstum að segja brotið í blað hvað það varðar að gefa öllu sem heitir samstarf, t.d. við aðila vinnumarkaðarins, langt nef þegar henni svo sýnist, leggur til drastískar breytingar á hlutum sem menn hafa nánast alltaf átt samkomulag um eða reynt að ná samkomulagi um breytingar á, eins og atvinnuleysisbótafyrirkomulaginu. Þegar um er að ræða hluti sem eru með samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins, t.d. fjármagnaðir af atvinnulífinu, eins og tryggingagjaldið og atvinnuleysisbæturnar, er sögulegt að menn skuli fara í svona tillögur án þess svo mikið sem að ræða við þessa aðila.

Varðandi jöfnun örorkubyrðinnar gengur frumvarpið út á það að á fjórum árum hverfi greiðsluþátttaka ríkisins í jöfnum skrefum með því að lækka það hlutfall af tryggingagjaldsstofni sem til þessa er látinn renna þannig að það fari niður í 0,260% á þessu ári, 0,195% á næsta ári, 0,130% á árinu 2017 og endi svo í 0,065% af tryggingagjaldsstofninum á árinu 2018 og sé þar með úr sögunni.

Meiri hlutinn horfðist í augu við það, m.a. vegna gagna sem við fengum, umsagna og gesta, að þetta væri alveg svakaleg stríðsaðgerð inn í sambúðina við aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðina vegna þess hversu misjafnlega þetta kemur niður á lífeyrissjóðunum. Á sama tíma þykjast menn vera að reyna að ná einhverju heildarsamkomulagi um framtíðarfyrirkomulag lífeyrismála í landinu en kasta svo stríðshanska af þessu tagi þarna inn. Við fengum gögn frá lífeyrissjóðum sem sýndu okkur fram á að þeir eru með svo þunga örorkubyrði, hún vegur svo þungt í því þegar tryggingafræðileg staða þeirra er reiknuð út að ef þetta yrði að veruleika yrðu þeir að skerða lífeyrisréttindi sjóðfélaga sinna um 5%. Og hvaða réttlæti væri í því að lífeyrisréttindi erfiðisvinnumanna, bænda, sjómanna, vélamanna og annarra slíkra, þar sem slysastíðni er mikil og nýgengi örorku er hátt, t.d. hjá lífeyrissjóðum á landsbyggðinni þar sem hlutfallið er mjög hátt, verði til frambúðar miklum mun lakari en annarra? Er það sanngjarnt? Á sama tíma stendur ríkið ábyrgt og sveitarfélögin á bak við um 40% af lífeyriskerfinu þar sem svona hlutir hafa engin áhrif. Það er ekki sanngjarnt.

Hvað gerði meiri hlutinn? Jú, hann rausnaðist til þess af miklu örlæti sínu, frú forseti — að gera hvað? Að seinka gildistöku ákvæðisins á árinu 2015 um sex mánuði. En það er ekki horfið frá planinu. Menn skulu skoða breytingartillögu við 4. gr. á þskj. 618, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Í stað orðanna „á árunum 2015–2018“ í 1. efnismálsl. komi: frá 1. júlí 2015 til 31. desember 2018.“

Það er ekkert annað gert en að fyrstu sex mánuðirnir eru klipptir framan af með því að seinka gildistökunni um sex mánuði. Að öðru leyti standa áform ríkisstjórnarinnar óbreytt um það að ríkið hverfi með öllu út úr þessu. Svo þykjast menn ætla í viðræður. Þetta er alveg stórfurðuleg framkoma, verð ég að segja. Ég hefði ekki mikinn áhuga á að fara að setjast niður við viðræðuborð með mönnum sem ætla að bjóða til þeirra með þessum hætti í hverju málinu á fætur öðru, hvort sem það er jöfnun örorkubyrðinnar, starfsendurhæfingarsjóðurinn eða það sem ég kem þá að næst, stytting atvinnuleysisbótatímans. Það er líka alveg dæmalaus aðgerð, fyrir nú utan að röksemdir meiri hlutans þar halda ekki vatni, þær fá ekki staðist. Jú, hv. þm. Pétur Blöndal fór yfir það að atvinnuástandið væri batnandi. Já, blessunarlega er það verulega að batna og hefur lagast mikið frá því sem það var verst, á útmánuðum 2010, þegar það fór yfir 9% og 12–13 þús. manns voru hér án atvinnu. Það eru samt um 5.700 manns skráðir án atvinnu í dag fyrir utan hina sem hafa þegar misst bótarétt sinn. Gangi þessi groddalega stytting tímabilsins eftir í einu höggi frá 1. janúar nk. missa um 1.300 manns bótarétt sinn þá og á næstu sex mánuðum ársins. Það er þannig. Um mitt næsta ár verða þá um 1.300 manns komnir út af atvinnuleysisbótaréttinum. Og hvert? Allir inn á vinnumarkaðinn? Nei, því miður væntanlega ekki. Það er ansi hætt við því að stór hluti þeirra eigi ekki í annað hús að venda en til sveitarfélaganna með framfærslu á næstu mánuðum. Að sjálfsögðu gerist þetta á versta tíma ársins, um áramót, þegar fram undan eru þyngstu mánuðirnir í atvinnuleysi. Eins og allir vita sem eitthvað eiga að vita um þessi mál er atvinnuástandið yfirleitt erfiðast og minnst í boði af lausum störfum mánuðina janúar, febrúar og mars. Þá fer að lifna yfir. Það væri strax skárra en ekki neitt að þessi breyting yrði látin taka gildi að vori þegar er þá að lifna yfir vinnumarkaðnum. Röksemdirnar um að atvinnuleysi sé orðið svo lítið halda ekki, það er samt 3,9–4% og upp í 4,5% ef við tökum mælingar Hagstofunnar, jafnvel 5% ef vinnumarkaðskannanirnar eru notaðar, 5.500–6.000 manns hið minnsta án atvinnu. Þar af leiðandi eru það ekki rök að atvinnuleysið hafi minnkað svo mikið að miðað við það sem menn áður þekktu sé núna rétt að stytta atvinnuleysisbótatímbilið. Það var líka gengið frá þessari 36 mánaða reglu árið 2006 þegar atvinnuleysið var nánast ekkert. Þá komust menn að þeirri niðurstöðu að það væri rétt að hafa þriggja ára bótatímabil á Íslandi. Hefur ástandið lagast síðan þá? Nei, það er nú sem þessu nemur verra og samanburðurinn annars staðar á Norðurlöndunum er ekki marktækur, t.d. við Danmörku, vegna þess að eftir að bótatímabilinu þar lýkur taka við alls konar önnur prógrömm sem í sumum tilvikum þýða að afkoma manna er bærilega tryggð lengur en hún væri með þriggja ára tímabilinu hér. Það er ekki tímabært að fara í þessar breytingar í öllu falli. Mér er til efs að það eigi yfir höfuð að fara neðar en í þessi þrjú ár sem menn urðu sammála um að hafa árið 2006.

Það sem gert var þegar atvinnuleysið skall á var að lengja tímabilið í fjögur ár og bæta við mjög víðtækum vinnumarkaðsaðgerðum til stuðnings þessum hópum. Ég tel að í það heila tekið hafi Íslandi farnast nokkuð vel að glíma við þann vágest sem stóraukið atvinnuleysið var í kjölfar hrunsins, og auðvitað stórkostlega ánægjulegt að það hefur unnist býsna myndarlega niður. Við erum samt ekki komin í mark og það þarf virkilega að hugsa um þennan hóp og halda utan um hann. Það ætti að vera léttara að ráða við það núna úr því að við gátum greitt fullar óskertar atvinnuleysisbætur í gegnum alla kreppuna. Hvaða rök eru fyrir því að núna hafi menn ekki efni á því að hafa þriggja ára atvinnuleysisbætur úr því að menn létu sig hafa það að fara með óskertar bætur, eins og þær voru nýhækkaðar fyrir hrun, og verja þær í gegnum alla kreppuna? Það var gert þannig að ég gef ekkert fyrir þetta, þetta eru ónýtar röksemdir. Niðurstaðan er sú að menn henda um 500 milljóna kostnaði yfir á sveitarfélögin og setja fólkið í miklu verri stöðu. Það bítur höfuðið af skömminni að ríkisstjórnin er á sama tíma að draga úr og jafnvel fella niður margar af þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem gripið var til á meðan ástandið var verst, loka framhaldsskólunum fyrir eldri en 25 ára o.s.frv. (Gripið fram í: Erum við að tala um …?) Þetta er ekki myndarlegt og það er aumingjalegt að geta ekki haldið áfram utan um þennan hóp og stutt hann þegar hann er þó orðinn þetta miklu minni en hann var þegar verst stóð á. Menn hafa engin efnahagsleg rök fyrir því núna.

Þetta var gert fullkomlega án nokkurs samráðs og sveitarfélögin kvarta eðlilega mjög undan því. Ég fæ ekki betur séð, því miður, en að menn séu á mörgum stigum að þverbrjóta lögbundna skyldu til að kostnaðarmeta áhrif af svona hlutum á sveitarfélögin. Það á að gera það samkvæmt lögum. Fjármálaráðuneytið er bara að stytta sér leið í þeim efnum. Við höfum ekkert slíkt kostnaðarmat séð á einhliða aðgerðum ríkisvaldsins núna sem hefur veruleg tekjuáhrif á sveitarfélögin. Á það allt að standa til bóta með nýju lögunum um opinber fjármál? Vilja menn þá ekki fara að æfa sig undir þau? En það þarf ekki einu sinni þau lög til því að það er í gildandi lögum að stjórnsýslustigin eiga að umgangast hvert annað svona. Ef ríkisvaldið, fjárveitinga- og fjárstjórnarvaldið, setur lög, breytir hlutum sem hafa bein kostnaðaráhrif á sveitarfélögin á að liggja fyrir mat á þeim áhrifum. En hér þurfa menn að fara til sveitarfélaganna og biðja þau að reyna að taka þennan kostnað saman og á því byggjum við. Samband íslenskra sveitarfélaga sem auðvitað hefur öflugan gagnagrunn til þess áætlar kostnaðarauka sveitarfélaganna upp á um hálfan milljarð króna.

Við komum aðeins inn á Framkvæmdasjóð ferðamannastaða í okkar nefndaráliti. Það liggur við að ég þyrfti að hafa með mér vasaklút í ræðustólinn ef ég á að fara að ræða það mál, svo ömurlega hefur allt sem snýr að því forklúðrast í höndum ríkisstjórnarinnar. Auðvitað getum við ekki annað en bent á að samkvæmt frumvarpinu á enn að skerða Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og hann fær ekki óskert gistináttagjaldið. Er það þó engin ósköp. Nei, það er hluti af aðhaldsaðgerðunum, segja þeir, (Gripið fram í.) að klípa 13 milljónir af þessum sáralitlu tekjum, þessum þremur fimmtu af tekjustofninum sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fær á móti þjóðgörðum og friðlýstum svæðum sem gera heilar 145 millj. kr. á næsta ári. Á sama tíma leggur hæstv. ferðamálaráðherra fram hér tvö frumvörp, um reisupassann annars vegar og um landsáætlun um uppbyggingu innviða ferðaþjónustunnar hins vegar, sem er hið besta mál. Þar er reynt að slá á það að þörfin sé að minnsta kosti 1 milljarður á ári í þrjú til fimm ár í beina fjárfestingu í innviðunum á fjölsóttum ferðamannastöðum, í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum, í því að byggja upp nýja áfangastaði o.s.frv. Þetta er algjörlega hörmuleg frammistaða, frú forseti, og eiginlega finnst mér það bíta höfuðið af skömminni að vera við þessar aðstæður að krukka í sjóðinn, eins og þetta sé ekki nógu aumt, eins og menn hafi ekki klúðrað þessu nógu rækilega. Nei, við skulum líka krukka aðeins bara í þetta litla sem hann þó fengi ef hann fengi að halda tekjustofninum sínum óskertum.

Varðandi loftslagssjóð leggur meiri hlutinn hér til að afmörkun eða eyrnamerking þess sjóðs í þágu umhverfisverkefna verði afnumin og tekjurnar renni beint í ríkissjóð. Þetta hefur allt of lítið verið athugað og er að mínu mati mjög mikið umhugsunarefni vegna þess að þessi sjóður er til kominn vegna þátttöku okkar í alþjóðlegu samstarfi og alþjóðlegum skuldbindingum og það er gagngert hluti af því fyrirkomulagi að tekjurnar renni til tengdra verkefna. Auðvitað er það miklu betur varið með því að þetta sé markaður tekjustofn í sjóð á þessu málasviði en renni ekki óskipt í ríkissjóð og það sé svo háð geðþótta hverju sinni hversu mikið menn láta ganga í einhver umhverfistengd verkefni. Einnig þetta er því gagnrýnivert.

Að sjálfsögðu komum við inn á S-merktu lyfin. Það hafa margir fleiri gert og tímans vegna held ég að ég hlaupi hratt yfir sögu þar. Við gagnrýnum að sjálfsögðu að einnig þar skuli stjórnarmeirihlutinn ætla að bera niður og ná sér í 145 milljónir frá sjúklingunum. Hv. þm. Pétur Blöndal ræðir hér oft um að hann vilji ekki stýra hegðun fólks og ekki hafa áhrif á neyslu þess og þess vegna megi ekki vera með sykurskatt eða eitthvað slíkt — en það má hafa áhrif á það hvort menn hafi efni á því að kaupa lyfin sín. Eiga menn eins mikið val þar og í hinu tilvikinu, hvort þeir borða sykraða vöru eða ekki? Nei, en það er allt í lagi að hafa áhrif á það hvort menn hafa efni á nauðsynjunum, hlutunum sem þeir geta ekki sleppt. Þá virðast sömu aðilar ekki feimnir við að beita valdi sínu og hækka lyfjakostnað sjúklinga þegar fyrir liggur að til dæmis 25–30% af öryrkjum hafa ekki efni á því að leysa án vandræða út lyfin sín. Þar er engin feimni.

Þá vil ég, frú forseti, nefna nokkur atriði sem ekki eru í frumvarpinu en ættu að vera þar. Í fyrsta lagi ætti að vera framlenging á ákvæði til bráðabirgða XV í lögunum um virðisaukaskatt sem er framlenging á átakinu Allir vinna, a.m.k. að einhverju leyti í staðinn fyrir að stúta því á einu bretti eins og hér stendur til að gera. Hvað segir í þessu bráðabirgðaákvæði? Jú, þar segir að það skuli endurgreiða 100% kostnað af virðisaukaskatti vegna vinnu á byggingarstað íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis, sömuleiðis kostnað vegna hönnunar og endurbóta sams konar breytinga og svo stendur í sérstakri málsgrein að þetta skuli líka taka til húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga eða félaga eða fyrirtækja sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga. Það er meira sem er að gerast hér en að endurgreiðslan sé að lækka úr 100% niður í hin gömlu 60%. Það er verið að þrengja aftur ákvæðið þannig að nú tekur það eingöngu til 60% af kostnaði á byggingarstað íbúðarhúsnæðis.

Þetta er dapurlegt vegna þess að þetta er eitt af þeim fjölmörgu úrræðum sem menn gripu til á sínum tíma sem hefur mælst vel fyrir, óumdeilanlega skilað miklum árangri og ég held að við séum ekki komin þangað enn þá að við eigum að slá það af á einu bretti. Ég bauð hæstv. ráðherra upp á það við 1. umr. að við ættum að halda undanþágunni óbreyttri en gætum búið við kannski 80% endurgreiðslu í tvö ár og svo færi hún niður í 60%. En maður talar algerlega fyrir daufum eyrum gagnvart öllu slíku, bara út með það og burt með það.

Ég nefni umhverfisvæna bíla. Það eru einhver mestu tíðindin, held ég, að það virðist ekki standa til að framlengja bráðabirgðaákvæði XXIV í sömu lögum þar sem heimild er til að fella niður virðisaukaskatt við innflutning og skattskylda sölu á nýjum rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðum. Hér er um verulega stórt mál að ræða að — (PHB: … öðruvísi.) Yrði inni? (Gripið fram í.) En það er ekki í breytingartillögunum. (Gripið fram í.) Já, nú eru mér sagðar fréttir hér í ræðustól, frú forseti, því að í efnahags- og viðskiptanefnd var okkur sagt að þetta stæði ekki til. (Gripið fram í.) Já, þá eru það alveg nýjar fréttir og ég fagna þeim að sjálfsögðu og get stytt mál mitt um þetta. Það var þá mikið að vitið komst fyrir stjórnarmeirihlutann en það er eins satt og að ég stend hérna að þegar málið var afgreitt út á fundinum í efnahags- og viðskiptanefnd var okkur tjáð að þetta yrði ekki. Einhver hringlandi er á þessu í stjórnarliðinu.

Að lokum þá að afslættinum á vörugjaldi vegna innflutnings á bílaleigubílum. Það er eins satt og það verður sagt og stendur hér í nefndaráliti minni hlutans að það var á sama korterinu og málið var tekið út úr nefnd sem okkur var tilkynnt að það ætti að helminga stuðninginn við innflutning á bílaleigubílum með því að lækka niðurfellinguna úr 1 millj. kr. í 500 þús. kr. Þetta er hluti af víðtækari ráðstöfun sem gripið var til til stuðnings bílaleigunum og rekstri þeirra þegar áfallið varð hér. Hluta af þeim stuðningsaðgerðum er búið að draga til baka, var gert um áramótin í fyrra, að þær mættu endurselja vissan hluta flotans fyrr en áður hafði verið samkvæmt almennum reglum, þ.e. fyrir þessa 15 mánuði, og nú er verið að taka þennan stuðning mjög harkalega niður sem búið er að framlengja í nokkur ár. Þetta er helmingslækkun. Röksemdafærslan í nefndaráliti meiri hlutans er satt best að setja ótrúleg. Jú, það er að hagur bílaleiga hafi batnað svo geysilega. Veruleikinn er því miður sá að bílaleigurnar voru allar á heljarþröm þegar þessar björgunaraðgerðir voru innleiddar á sínum tíma og einhverjar þeirra þurftu að fara í fjárhagslega endurskipulagningu. En sú stærsta þeirra hefur barist í gegnum þá erfiðleika án slíkrar fyrirgreiðslu og er rétt að komast upp úr sjó núna. Eigið fé í þessari grein er 4% samkvæmt upplýsingum frá þeim sjálfum. Flestar þeirra komust upp fyrir núllið í ár. Það er nú allur batinn. Það er öðruvísi talað um sjávarútveginn, hann er alltaf á hausnum þó að gróðinn skipti tugum milljarða, en bílaleigurnar hafa það svo gott að það er ástæða til að kippa þessum stuðningi frá þeim. Ja, það er ekki það sama, Jón og séra Jón, það er alveg greinilegt.

Þetta gagnrýni ég og tel að gangi ekki. Gildistakan á þessu strax um áramót er algerlega fráleit með engum fyrirvara. Fyrirtækin eru búin að panta inn bíla, umboðin fá þá á næstu mánuðum og þetta auðvitað kolfellir það verð sem menn höfðu reiknað út að þeir þyrftu að greiða o.s.frv. Þetta atriði, frú forseti, vona ég að okkur gefist tími til að taka betur fyrir milli 2. og 3. umr. (Forseti hringir.) þegar málið kemur aftur til nefndar. Satt best að segja veitir ekki af því að laga það alveg heilmikið til ef það á að teljast brúklegt til afgreiðslu fyrir jól.