144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[17:19]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar maður fer yfir þetta frumvarp og sömuleiðis það frumvarp sem við ræddum hér áðan, um breytingu á lögum um virðisaukaskatt o.fl., þá sýnist manni að mjög víða sé verið að hækka álögur á hinar ýmsu greinar. Í því frumvarpi er til dæmis, fyrir utan að verið er að hækka álögur á heimilin í landinu, verið að hækka álögur á bókaútgefendur, kvikmyndahús, tónlistarútgáfu o.fl.

Hér er síðan aftur í raun verið að hækka álögurnar með því að draga til baka ívilnanir sem hafa verið, t.d. í átakinu Allir vinna. Þar er verið að hækka álögur. Það er verið að hækka álögur á innflutning rafbíla ef ekki verður af breytingu sem rætt hefur verið um að gæti orðið milli 2. og 3. umr. Núna á að hækka álögur á bílaleigur o.s.frv.

Mér finnst þetta orðið ansi mikið. Ég verð að segja það alveg eins og er, virðulegi forseti, að þegar maður horfir yfir sviðið þá er þessi ríkisstjórn að hækka gríðarlega mikið af álögum hér og þar, en segir alltaf að það sé í nafni einfaldleika. Ég átta mig ekki á þessu.

Ég vil spyrja hv. þingmann, sem er nú reynslubolti í þessu öllu saman, hvort hann hafi séð jafn mikið af hækkunum og raun ber vitni á tímum eins og nú, þegar við erum komin á nokkuð góðan stað með ríkisfjármálin, og hvort menn hafi tekið það saman hvaða áhrif þetta geti haft á atvinnulíf í landinu. Ég hef áhyggjur af þessu. Það er algjörlega ljóst í mínum huga að sú ríkisstjórn sem hér situr er mjög skattaglöð, þ.e. hún hefur ánægju af því (Forseti hringir.) að leggja mikla skatta á víða í samfélaginu.