144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vandinn er sá að ríkisstjórnin leggur bara skatta á ranga aðila, þ.e. að hún er að létta sköttum í stórum stíl af aðilum sem engin sterk rök standa til og hækkar í staðinn skatta eða kippir til baka stuðningi við ýmsa aðra sem er mikið umhugsunarefni. Það verður til dæmis seint sagt um þessa ríkisstjórn að hún hafi mjög græna fingur. Ef við reynum að átta okkur á því hvert blessuð ríkisstjórnin er að fara í umhverfismálum þá er það með ólíkindum. Hún virðist enga meðvitund hafa þar. Að vísu verður það fagnaðarefni ef menn sjá að sér með umhverfisvæna bíla en að ýmsu öðru leyti, eins og ég hef farið hér yfir, þá er það nú ekki á ferðinni.

Hækkanir eru drjúgar. Auðvitað er það í sjálfu sér skattahækkun að lækka endurgreiðslu kostnaðar sem rök hafa staðið til að endurgreiða til stuðnings einhverri starfsemi, hvort sem það eru endurbætur á húsnæði eða endurnýjun bílaleiguflotans þannig að hann eldist ekki úr hófi fram. Ég kom því nú ekki að hér áðan að auðvitað er mesta áhyggjuefnið að sú þróun haldi áfram sem var komin í gang og komin á hættulegt stig þegar gripið var til þeirra ráða að gera endurnýjun bílaflotans ódýrari. Bílarnir höfðu einfaldlega elst og bílaleigurnar réðu ekki við að endurnýja þá. Það er stórskaðlegt fyrir ímynd ferðaþjónustunnar, það er öryggisspursmál og þar fram eftir götunum. Það er hætt við því að sama þróun hefjist aftur.

Ríkisstjórnin er að hækka skatta á sjúklinga, það er auðvitað skattahækkun. Svo er matarskatturinn og þannig mætti áfram telja. Ég held reyndar að mestu mistök sín hafi ríkisstjórnin gert þegar hún kom hingað inn og meiri hlutinn í geðvonsku sinni og hafði það að sérstöku markmiði að henda fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar og ýmsum góðum hlutum sem menn voru komnir í gang með. Sumt af því hefur ríkisstjórnin étið ofan í sig aftur. Eftir eins árs fýlukast hefur hún allt í einu séð að skynsamlegt er að leggja fjármuni í rannsóknar- og samkeppnissjóðina, að það þurfi kannski eitthvað að huga að uppbyggingu í ferðaþjónustunni, að kannski sé rétt að hækka aðeins virðisaukaskatt á gistingu, en hún var ekki þeirrar skoðunar í fyrra. (Forseti hringir.) Ég fæ nú lítinn botn í það satt best að segja, hv. þingmaður, ef ég á (Forseti hringir.) að reyna að svara fyrir um það hver heldur utan um og (Forseti hringir.) stjórnar verklaginu hjá þessari ríkisstjórn, t.d. í skattamálum.