144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins í viðbót um skattana. Það sem undrar mig langmest og mér finnst eiginlega merkilegast í ljósi þess hvað þessir flokkar telja sig standa fyrir, sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, að hann sé vinveittur atvinnulífinu og vilji veg þess sem mestan, er meðferðin á tryggingagjaldinu. Ég verð að segja alveg eins og er að það undrar mig enn og æ meira hversu þögulir menn hafa verið gagnvart því hvernig ríkisstjórnin hefur farið með tryggingagjaldið.

Við sjáum þessar miklu lækkanir þar sem ríkið er greinilega tilbúið til að gefa eftir tekjur, í veiðigjöldum, auðlegðarskatti, miðþrepi í tekjuskatti og núna mun ríkið tapa nettó umtalsverðum fjármunum á skattbreytingunum í heild, þ.e. af niðurfellingu vörugjalda og lækkun efra þreps virðisaukaskatts sem er mun dýrara en tekjuaukinn af matarskattshækkuninni, en þegar kemur að tryggingagjaldinu þá hefur þessi ríkisstjórn að mínu mati algjörlega brotið í blað. Þetta er í fyrsta skipti sem heiðursmannasamkomulagið um að atvinnulífið verði að taka á sig hækkun tryggingagjalds á tímum aukins atvinnuleysis, og öfugt, er algerlega brotið. Lækkun atvinnuleysis og minnkandi útgjöld byðu núna upp á að tryggingagjaldið í heild sinni yrði lækkað um á annað prósentustig á sama tíma og stjórnin hefur lækkað það einu sinni um 0,1 prósentustig og ætlar að lækka það aftur um 0,1 prósentustig og hefur í raun breytt stórum hluta af atvinnutryggingagjaldinu þar með í almennan tekjustofn fyrir ríkið. Þarna hefði ég haldið að ríkisstjórnin hefði borið fyrst niður, er kæmi að skattalækkunum. Frá atvinnusjónarmiðum séð og hagvaxtarsjónarmiðum séð þá væri það að mörgu leyti þarna sem ætti alveg sérstaklega að bera niður ef menn teldu sig hafa efni á því að lækka skatta.

Varðandi Framkvæmdasjóð ferðamannastaða þá voru meirihlutamenn eitthvað óskaplega þögulir þegar það mál var rætt. Það er auðvitað vísað í ósköpin, í óbermið, í reisupassann, að það eigi að fara að koma upp einhverjum tekjustofni, en mér sýnist algerlega ljóst að næsta ár fari líka í súginn. Það er þegar búið að (Forseti hringir.) forklúðra öðru árinu til, eins og ríkisstjórnin stendur að þessu, (Forseti hringir.) nema þrautalendingin verði að sulla inn aukafjárveitingu (Forseti hringir.) einhvern tíma á vormánuðum.