144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[17:29]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór ágætlega yfir nefndarálit okkar þriggja sem sitjum í minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar en það hefst á setningu sem ég ætla að byrja á því að útskýra og gera að umtalsefni. Við segjum: „Í þessu frumvarpi má segja að birtist skuggahliðar ríkisrekstrarins.“ Við erum að benda á að þetta frumvarp snúist um að taka ýmis gjöld sem hafa verið lögð á til að standa undir tilteknum málaflokkum með samningum og setja þau beint inn í ríkisreksturinn. Það heitir frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015 sem er loðið og tæknilegt en þetta er í raun og veru frumvarp til laga um ýmis svik ríkisins á samningum. Það er rauði þráðurinn í þessu. Þetta er frumvarp til laga um ýmsar skammtímareddingar í ríkisfjármálum, hvernig ríkisstjórnin ætlar að ná pening inn í ríkissjóð bakdyramegin, hvernig á að gera gjaldafyrirkomulagið og skattkerfið flóknara og ógegnsærra og ósanngjarnara. Það er mikið talað um að einfalda skattkerfið, að það eigi að vera gagnsætt og sanngjarnt. Hér eru öll slík markmið látin liggja á milli hluta.

Ég er svo sem ekki að saka neinn um eitt eða neitt. Ég held að þetta sé að mörgu leyti ósiður sem hefur verið lengi en nú keyri um þverbak. Ég held að oft hafi ríkisvaldið þurft að ganga á bak orða sinna í samningum en ég leyfi mér að fullyrða að yfirleitt hafi það þá verið gert með einhvers konar samráði við aðila vinnumarkaðarins þegar þess hefur þurft. Hér er algerlega rauður þráður í öllum þessum samningssvikum að ekkert samráð liggur til grundvallar. Við segjum í nefndaráliti okkar að þetta sé mjög alvarleg þróun.

Stór hluti af þessu máli fjallar til dæmis um tryggingagjaldið. Tryggingagjaldið er samstarfsverkefni ríkis og vinnumarkaðarins. Það er gjald sem verður að ríkja sátt um milli ríkisvaldsins og vinnumarkaðarins um hvað það eigi að fjármagna. Það á að fjármagna ákveðna hluti sem eru vinnumarkaðnum til hagsbóta, starfsendurhæfingu, fæðingarorlof, atvinnuleysisbætur og að hluta til líka þætti í rekstri almannatryggingakerfisins.

Það hefur verið einkenni íslenska velferðarkerfisins að vinnumarkaðurinn hefur tekið þátt í því að mjög stórum hluta, eins og Samtök atvinnulífsins og verkalýðsfélög, í gegnum ráðstöfun á tryggingagjaldinu til alls konar velferðarmála sem þjóna vinnumarkaðnum. Stundum hefur ríkið ekki getað staðið við skuldbindingar sínar eins og um langa hríð varðandi fjárframlög í starfsendurhæfingarsjóð en það hefur þó verið gert oftsinnis, leyfi ég mér að fullyrða, með einhvers konar skilningi aðila vinnumarkaðarins. Nú er ekkert slíkt.

Ég sagði að hér væri verið að ná í tekjur bakdyramegin inn í ríkissjóð. Stóra myndin í því er hvernig tryggingagjaldið hefur þróast. Tryggingagjaldið leggst á öll laun. Það er skattur sem leggst á fyrirtæki algerlega óháð því hvort þau skili hagnaði eða ekki. Það leggst til dæmis einstaklega þungt á nýsköpunarfyrirtæki og lítil fyrirtæki. Það er þungur baggi á þeim. Réttlætingin á tryggingagjaldinu hefur alltaf verið að það sé gjald sem renni til ýmissa velferðarmála fyrir vinnumarkaðinn og nauðsynlegt sé að vinnumarkaðurinn standi að í samstarfi við ríkið.

Árið 2009 fór atvinnuleysi hér upp í hæstu hæðir, rauk upp. Það var skilningur á því meðal aðila vinnumarkaðarins að það þyrfti að hækka atvinnuleysistryggingagjaldið, sem er hluti af tryggingagjaldinu, til að mæta auknu atvinnuleysi. Reynslan hefur sýnt að freisting ríkisins, freisting ríkiskrumlunnar varð ríkinu um megn. Ríkið situr enn á þessum tekjum. Tryggingagjaldið er 7,59% núna; það hefur hækkað um 2,35 prósentustig frá því árinu 2009 og megnið af hækkuninni var réttlætt með því að atvinnuleysið fór upp en síðan hefur atvinnuleysið farið niður en tryggingagjaldið hefur ekki lækkað. 2,35% tryggingagjald eru ríflega 20 milljarðar í ríkissjóð. Hér fer ríkisstjórnin, eins og ég segi, bakdyramegin með því að ganga á bak orða sinna og ná pening inn í ríkissjóð á ógagnsæjan hátt í gegnum gjald sem leggst mjög illa á atvinnulífið, tekur ekki mið af hagnaði í fyrirtækjum og þar fram eftir götunum. Ég verð að taka undir með fyrri ræðumanni að ég hefði haldið að það væri forgangsatriði að ná tryggingagjaldinu niður, ekki síst hjá núverandi ríkisstjórnarflokkum sem tala svolítið um atvinnulífið.

Í fyrra, á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar og fyrsta skipti sem hún lagði fram tekjuöflunarfrumvörp, var farið í alveg ótrúlega fléttu. Ákveðið var að lækka atvinnuleysistryggingaþátt tryggingagjaldsins vegna þess að atvinnuleysið hafði farið niður, vissulega, réttlætismál og augljóslega þurfti að gera það, en á sama tíma var hækkaður sá hluti sem fer í almannatryggingakerfið algerlega án samráðs og framlagið sem fer í Fæðingarorlofssjóð af tryggingagjaldinu var líka lækkað um helming og látið renna inn í ríkissjóð í gegnum almenna þátt tryggingagjaldsins. Það er algerlega fyrirsjáanlegt að Fæðingarorlofssjóður getur ekki rekið sig á því framlagi þannig að það mun að öllum líkindum þurfa að hækka tryggingagjaldið enn þá meira til að mæta þörfum Fæðingarorlofssjóðs á komandi árum.

Almenni þáttur tryggingagjaldsins hafði í fyrra hækkað um 56% á tveimur árum. Það var algerlega án samráðs og engin sátt var um það að tryggingagjaldið ætti að svo stórum hluta að renna inn í ríkissjóð. Þá er þetta bara enn einn skatturinn, þetta er ekki lengur gjald sem á að standa undir einhverjum verkefnum á vinnumarkaði sem sátt er um. Þetta er orðinn launaskattur. Það er þróunin.

Það er merkilegt að horfa á þessi tvö tekjuöflunarfrumvörp til samans, 2. og 3. mál. Í 3. máli, sem við ræðum nú, er ríkisvaldið að ná sér í 2–3 milljarða í gegnum alls konar svona bix með því að taka til sín hina og þessa mörkuðu tekjustofna eins og í tryggingagjaldinu, í loftslagssjóði, í gistináttagjaldi og þar fram eftir götunum. Í hinu frumvarpinu, 2. máli, er verið að lækka vörugjöld o.fl. Það er sagt vera skattalækkun og okkur er sagt að líta á heildina vegna þess að í heild sé það skattalækkun. Eigum við ekki að fleygja þessu frumvarpi þá líka inn í heildina? Af hverju má það ekki vera með líka? Hér er verið að ná í pening, 2 milljarða á þessu ári, miklu meira í fyrra og á hverju ári vel yfir 20 milljarða bakdyramegin með því að láta tryggingagjaldið ekki lækka eins og það ætti að gera miðað við minnkandi atvinnuleysi. Hér er bara verið að fjármagna með algerlega ógagnsæjum og flóknum hætti sem fáir skilja við fyrstu sýn allt sem ríkisvaldið er að gera með hinni hendinni. Annars vegar höfum við hina mjúku hönd ríkisvaldsins sem færir okkur einhvers konar skattalækkanir og hins vegar hina ljótu krumlu. Ljóta krumlan er í þessu máli, hún svíkur samninga og nær sér með alls konar refsbrögðum í hina og þessa peninga sem ættu að renna til annarra hluta.

Starfsendurhæfingarsjóður. Í fyrsta skipti ákveður ríkisvaldið að setja 200 milljónir í þann sjóð. Það er í fyrsta skiptið sem ríkið ákveður að standa við gefna, undirskrifaða samninga um að 0,13% stofn til tryggingagjalds renni til sjóðsins en 0,13% stofn til tryggingagjalds er miklu meira en 200 milljónir. Mun hærri upphæð ætti að renna til sjóðsins. Þetta þarf aðeins að rifja upp vegna þess að í þessu máli gerast sumir talsmenn ríkisstjórnarinnar fullvígreifir finnst mér og segja að ríkið eigi í rauninni ekkert að leggja til þessa sjóðs, ríkið þurfi peninginn í annað. Hvað er starfsendurhæfingarsjóður? Hann byggir á samkomulagi vinnumarkaðarins, lífeyrissjóðanna og ríkisvaldsins um að vinna að einni allsherjarstarfsendurhæfingu fyrir þá sem eru á vinnumarkaði og líka fyrir þá sem hafa ekki verið á vinnumarkaði.

Lífeyrissjóðirnir og vinnumarkaðurinn segja: Ríkisvaldið á að fjármagna þá sem eru ekki á vinnumarkaði, það framlag á að koma inn. — En ríkiskrumlan birtist þá og segir: Nei, þetta er svo mikill peningur, þið getið bara séð um þetta. Þið sjáið líka um þá sem eru ekki á vinnumarkaði og ekki tryggðir hjá lífeyrissjóði. Þið gerið þetta ókeypis fyrir okkur vegna þess að við erum svo æðisleg.

Þolinmæði vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðanna er auðvitað á þrotum. Þess vegna eru komnar núna 200 milljónir til málamynda inn í sjóðinn. Menn þaðan hafa verið að segja: Við ætlum að hætta þessu. Við ætlum að hætta að sinna starfsendurhæfingu fyrir þá sem hafa ekki verið á vinnumarkaði. Ríkisvaldið getur þá bara gert það fyrir sinn pening.

Hvað gerist þá? Þá eru komnar tvær þjóðir í landið. Þá eru komnir þeir sem fá flotta starfsendurhæfingu hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði og eru tryggðir á vinnumarkaði og síðan hinir, ungt fólk, fólk sem hefur verið heimavinnandi, fólk sem hefur glímt við sjúkdóma eða hitt og þetta sem fær miklu verri starfsendurhæfingu, ef þá nokkra. Það viljum við væntanlega ekki. Um þetta snýst málið.

Svo kom hæstv. félagsmálaráðherra í pontu í gær og segir að það sé eitthvert prinsipp að ríkið borgi ekki starfsendurhæfingu vegna þess að það eigi ekki að borga meðan það er sjóður þarna. Það er í fyrsta skipti sem ég hef heyrt þau sjónarmið. Starfsendurhæfingarsjóður hefur einmitt sagt: Við verðum að hafa einhvern sjóð vegna þess að við verðum að geta staðið við skuldbindingar eitthvað fram í tímann því að það er verið að gera alls konar samninga við hina og þessa aðila sem sinna starfsendurhæfingu.

Svo ákveður ríkisvaldið algerlega einhliða að hætta að jafna örorkubyrði. Það er hluti af samningum við vinnumarkaðinn. Við erum með skyldulífeyrissjóði, það verða allir að borga í lífeyrissjóð. Sumir lífeyrissjóðir eru með mikið af félagsmönnum sem stunda erfiðisvinnu, sjómenn, bændur og fleiri, og örorkubyrði meðal félagsmanna í lífeyrissjóðum þeirra er því miklu meiri en hjá lífeyrissjóðum sem tryggja til dæmis aðallega skrifstofufólk. Hver á að jafna þessa örorkubyrði?

Hæstv. félagsmálaráðherra kom upp í pontu í gær og sagði um þetta mál: Við verðum bara að sameina lífeyrissjóðina og þá er þetta vandamál úr sögunni. Það er enginn að fara að sameina lífeyrissjóðina. Ég veit ekki til að það standi til, ég hef ekki séð neitt frumvarp um það. Ég hef ekki séð neinar áætlanir um það. Þetta er bara einhver framtíðarmúsík ráðherrans sem ég hef ekkert orðið var við í neinum þingskjölum.

Ef við höfum samkeppni lífeyrissjóðanna og skyldutryggingu í lífeyrismálum verður ríkið að jafna örorkubyrðina vegna þess að annars fá þeir sem stunda meiri erfiðisvinnu minni lífeyri og þurfa að borga hærri iðgjöld. Aftur: Tvær þjóðir í landinu. Það viljum við ekki. Það veldur mér áhyggjum að ríkisvaldið bakki með fyrirætlanir um að má út jöfnun á örorkubyrði um hálft ár. Hvað er það? Grundvallaratriðið er að ríkisvaldið verður að hætta algerlega við þessi áform. Það bjargar ekki málunum að fresta þessu um hálft ár. Grundvallaratriðið er einfaldlega að það er ótækt að gera þetta meðan við búum við svona lífeyriskerfi.

Stytting atvinnuleysisbótatímabilsins. Þar stendur ekki steinn yfir steini finnst mér í málflutningnum. Enn og aftur er verið að gera hið sama. Setja á einhvern stokk af langtímaatvinnulausum yfir á sveitarfélögin í miklu ósamræmi við fyrirhuguð lög um opinber fjármál, nota bene. Sá hópur mun fara á framfærslu sveitarfélaganna sem mun leiða til aukins kostnaðar þar. Ríkið sparar þarna pening. En lækkar tryggingagjaldið? Nei, það lækkar ekkert. Hér er því enn og aftur með einhverri brellu verið að reyna að ná peningum bakdyramegin inn í ríkissjóð. Röksemdin er ótrúleg, þó að atvinnuleysi hafi farið niður er það engin röksemd fyrir því að bótatímabilið eigi að vera styttra. Hve mikið atvinnuleysi er stýrir því ekki hvað bótatímabilið á að vera langt. Lengd bótatímabilsins var ákveðin 2006 í blússandi góðæri og byggir einfaldlega á greiningu á því hvað telst hæfilegt að einstaklingur sé lengi á atvinnuleysisbótum með hliðsjón af því hvort líklegt sé að hann muni fá vinnu. Komist var að þeirri niðurstöðu að þrjú ár væri hæfilegt og eftir það þyrfti sá einstaklingur á einhverjum öðrum úrræðum að halda. Það er ástæðan fyrir lengd bótatímabils. Hér liggja engar greiningar að baki, engar. Þetta er allt á sömu bókina lært einhvern veginn.

Ég tek undir það hversu fáránlegt það er að ná í 13 milljónir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, klípa af gistináttagjaldinu í hagræðingarskyni. Það er háðulegt á meðan fjárþörfin þar er æpandi. Það er ótrúlegur vandræðagangur hjá ríkisstjórninni þegar kemur að Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Það var samþykkt í fjárfestingaráætlun að leggja drjúgan pening í þetta málefni vegna þess að þörfin var augljós. Því var ýtt út af borðinu umsvifalaust í árdögum þessarar ríkisstjórnar. Svo átti að koma einhver upphæð aftur inn í fjáraukann vegna þess að allir sáu að það þyrfti að grípa til einhverra aðgerða. Ríkisstjórnin er alltaf að slá í og úr í þessu máli.

Það á líka að sækja pening inn í loftslagssjóð. Tekjur af sölu losunarheimilda renna til loftslagssjóðs til ýmissa verkefna í umhverfismálum. Ríkið ætlar að ná í helminginn af þeim peningum.

S-merktu lyfin eru birtingarmynd aukinnar kostnaðarþátttöku í heilbrigðisþjónustu. Nú ætlar ríkisvaldið að velta um 145 millj. kr. yfir á sjúklinga. Það er mjög „grand“. Okkur voru ekki kynntar fyrir nefndinni neinar útskýringar á þeim útreikningi og hvernig menn fengu þessa tölu, 145 milljónir. Margir lýstu áhyggjum af því að þetta mundi virka eins og hvati. Ákvæðið er þannig að S-merkt lyf sem eru ávísuð utan heilbrigðisstofnana fara inn í greiðsluþátttökukerfið. Verður það ekki hvati fyrir stofnanir til að ávísa lyfjunum utan sinna veggja og velta kostnaðinum yfir á sjúklinga? Það á eftir að koma í ljós.

Ég lýsi mikilli óánægju með að hætt hafi verið með átaksverkefnið Allir vinna, þ.e. fyrirkomulagið að endurgreiða virðisaukaskatt. Ég sakna þess að hafa ekki fengið neina greiningu á því fyrir nefndinni hvernig það tókst til. Minnkaði það ekki skattsvik og undanskot? Leiddi það ekki til meiri veltu í byggingariðnaði o.s.frv.? Af hverju er verið að hætta við það?

Það er ömurlegt að ekki eigi lengur að fella niður vörugjöld af umhverfisvænum bílum. Engin greining liggur því til grundvallar. Af hverju viljum við ekki fjölga umhverfisvænum bílum sem ganga á innlendu eldsneyti? (Forseti hringir.) Sparar það ekki gjaldeyri?

Þetta er ótrúlega vanbúið frumvarp og (Forseti hringir.) ömurlegt. Ég hugsa að enginn geti verið stoltur af því. Þetta er bix.