144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[17:51]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Ég veit ekki alveg hverju Sjálfstæðisflokkurinn lofaði en það kæmi mér ekki á óvart. Mér finnst ég hafa heyrt það á einhverjum hlaupum að jafnvel báðir flokkar í ríkisstjórnarsamstarfinu hafi haft áhuga á því að lækka tryggingagjaldið, a.m.k. fyrir kosningar.

Í öllu falli kemur það mér á óvart að tryggingagjaldið skuli vera algerlega falið í þessari umræðu. Það er ekkert talað um það. Þetta birtist mér þannig að á meðan ekkert er talað um það og það er falið í svona flóknum frumvörpum um forsendur fjárlaga og eitthvað slíkt og umkringt alls konar flækjum — í fyrra var til dæmis mjög flókin meðferð á tryggingagjaldinu og maður þurfti að lesa sig mörgum sinnum í gegnum það til að fatta að ekki var verið að lækka gjaldið heldur var bara verið að flytja gjaldstofna til innan sjálfs tryggingagjaldsins — þá er það augljós freisting fyrir ríkisvaldið að halda alltaf um 20 milljarða tekjum, þ.e. hækkuninni frá 2009 sem hefur ekki gengið til baka. Hækkunin 2009 var af fullkomlega augljósum ástæðum en hún átti að ganga til baka. Það er freistandi fyrir ríkiskrumluna að sækja þennan pening.

Svo vil ég taka undir og það var ríkur þáttur í máli mínu líka að þetta er mjög klunnalegur skattur. Hann leggst á öll fyrirtæki burt séð frá því hvernig þeim gengur. Þetta er skattur á hvern starfsmann. Samtök atvinnurekenda gáfu út ágæta stefnu fyrir nokkrum missirum um það hvernig ætti að efla lítil fyrirtæki og var bent á að prósentustigslækkun (Forseti hringir.) á tryggingagjaldi mundi veita litlum fyrirtækjum (Forseti hringir.) svigrúm til að ráða 1.700 manns í vinnu.