144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:51]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er ekki ofsögum sagt að hægt er að ræða þessi mál ríkisstjórnarinnar, fjárlögin og svo tekjuhliðina og það sem hér er verið að bjóða landsmönnum upp á, vel og lengi. Mig langar til að byrja á því að vitna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“

Síðar segir:

„Unnið verður að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar.“

Enn síðar segir að unnið verði að því að tryggja jafnrétti allra landsmanna, taka eigi upp bætt vinnubrögð við fjárlagagerð, horfa til lengri tíma til að bregðast við stöðu ríkissjóðs og tryggja skynsamlega nýtingu á fjármagni.

Ég hef ekki náð samhengi á milli þess sem þarna kemur fram og þess sem við fjöllum um hér. Það sem kemur fram í frumvarpinu er meira og minna ekki í sátt við aðila vinnumarkaðarins, svo eitt dæmi sé tekið af því sem ég las upp úr. Það er í rauninni ótrúlegt að ríkisstjórnin leggi inn í veturinn með lækna í verkfalli og vinnumarkaðinn svona ósáttan eins og frumvarpið gefur til kynna og umsagnir við það. Því er ekki að leyna, það kemur fram í umsögnum. Það er kannski rétt sem kemur fram í upphafi nefndarálits minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar en þar er talað um að skuggahliðar ríkisrekstrarins birtist í þessu frumvarpi.

Við í stjórnarandstöðunni erum búin að ræða töluvert um ákveðna þætti málsins. Það er auðvitað vegna þess að við höfum af því áhyggjur en ekki bara við heldur einnig þeir sem hafa gefið því umsagnir. Það er í sjálfu sér viðleitni að mæta VIRK með því að draga örlítið úr skerðingunni eða öllu heldur þeim áformum að leggja niður framlag ríkisins í þann sjóð. Það var eitt af því sem varð til þess að ég ákvað að lesa upp úr stjórnarsáttmálanum, þetta var gert algerlega án þess að eiga nokkur samskipti við atvinnulífið um hvernig fara ætti með framlög til sjóðsins, það var bara ákveðið og átti að ganga yfir óbreytt. Eins og segir í nefndarálitinu er þetta alls ekki nægjanlegt að okkar mati í stjórnarandstöðunni, framlagið sem nú er að koma til í þennan sjóð, og það á bara að koma til í eitt skipti, a.m.k. miðað við það sem kemur fram í breytingartillögu meiri hlutans. Vissulega hefur það eitthvað að segja upp í þá þjónustu sem þarna þarf að sinna en það er athyglisvert að hvergi er minnst á það hvernig fyrirkomulagið á að vera. Það er eitt af því sem er dálítið gegnumgangandi, finnst mér, það er ekki búið að leiða til lykta hin ýmsu mál, hvernig eigi að koma þeim fyrir, hvernig framtíðarfyrirkomulag eigi að vera. Það á við um þetta mál, verið er að taka ákvarðanir um fjárframlög og síðan á að skoða eitthvað. Það liggja ekki fyrir tímasetningar eða neitt slíkt. Þetta er ekki eina dæmið sem um er að ræða í því sambandi.

Í nefndarálitinu er fjallað um jöfnun örorkubyrði og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór vel yfir það fyrr í dag hvernig greiðsluþátttaka ríkisins á að hverfa í jöfnum skrefum. Það er í raun ótrúlegt að aftur sé verið að koma aftan að atvinnulífinu með því að ákveða einhliða að fara í þá aðgerð og ekki að draga hana til baka heldur að fresta henni fram á mitt ár. Og hvað þá? Hvernig sér stjórnarmeirihlutinn fyrir sér framhaldið hjá lífeyrissjóðunum og þeim sem eiga þá, m.a. þá sem þiggja örorkubætur úr þeim lífeyrissjóðum sem eru í erfiðari stöðu, eins og hér var rakið í dag, og bera mun þyngri örorkubyrði? Það hefur ekki komið fram. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvort þingmenn séu meðvitaðir um það að þeir eru með þessu að leggja til skerðingu hjá lífeyrisþegum sem hafa hugsanlega orðið öryrkjar snemma vegna einhverra slysa eða eitthvað slíkt og það getur þurft að lækka framfærslu þeirra um allt að 5%. (PHB: Ég nefndi það.) Það breytir því ekki, hv. þm. Pétur Blöndal, að þið eruð ekki að breyta neinu. Það er það sem málið snýst um. Það er ekki nóg að nefna eitthvað ef ekkert fylgir því. Það hlýtur að þurfa að fylgja að þessi aðgerð verði dregin til baka. Öðruvísi er ekki hægt að mæta þessu.

Í áliti minni hlutans er næst komið inn á styttingu atvinnuleysisbótatímabilsins. Það er hrakið að einhverju leyti það sem stendur í áliti meiri hlutans að verið sé að færa fyrirkomulagið til samræmis við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Færð eru fyrir því rök að t.d. í Danmörku sé annar háttur hafður en ríkisstjórnin leggur nú til að verði á málum. Það fólk sem er búið að vera atvinnulaust í tiltekið langan tíma og varð atvinnulaust þegar lögin voru í gildi, og þau eru vissulega í gildi enn þá, verður án réttinda núna um áramótin eða lendir á sveitarfélögunum. Það er eiginlega mjög furðulegt þegar við komum að því víðtæka samráði sem átti að hafa við atvinnulífið og svo má auðvitað velta fyrir sér frumvarpinu um opinber fjármál og hvort þetta haldist í hendur við að hafa gott samráð við sveitarfélögin í landinu. Þetta er mjög athyglisvert. Ég hef trú á því að hv. þingmenn í stjórnarmeirihlutanum hafi fengið álíka pósta, samtöl og hringingar og við hin. Ég nefni bara símtal sem ég fékk í fyrradag þar sem kona um sextugt hafði samband og lýsti raunum sínum og sagði: Það er kennitalan ein sem ræður för. Hæfni mín eða menntun eða annað í gegnum tíðina skiptir ekki máli.

Þá má velta því fyrir sér hvort styttingin valdi því ekki að fé fari á milli sjóða hjá ríkinu, annaðhvort að örorkulífeyrisþegar verði fleiri eða, ef það er um yngra fólk að ræða, með auknum barnalífeyrisgreiðslum. Við erum nú þegar að bæta í endurhæfingarlífeyri. Það er spurning hvort það sé tilfærsla á fé að stytta atvinnuleysisbótatímabilið sem þessu nemur. Það er líka annað, eins og ég nefndi áðan, að hér liggur ekki fyrir nein greining eins og var gerð forðum þegar farið var í breytingar á atvinnuleysisbótaréttindum. Það var ekki eins og það væri gert út í bláinn. Þau voru ekki aukin „af því bara“. Þetta er líka eitthvað sem mér finnst ekki hafa komið skýrt fram í umræðunni hjá meiri hluta þingmanna. Telja þeir að það verði tilfærsla í kerfinu, m.a. í örorkulífeyrisgreiðslum, hvort sem það er í formi endurhæfingarlífeyris eða annað? Hverjir eru það sem missa nú bótaréttinn, hvaða aldurshópar, hvernig eru kynjahlutföllin? Það væri áhugavert að skoða það af því að sveitarfélögin eru ekki öll í stakk búin til að taka við þessum hópi. Það er enginn sem kýs, eða fæstir skulum við segja, sem kjósa það að vera á atvinnuleysisbótum. Við skulum gefa fólki það að það vilji vinna. Það er hins vegar örugglega afskaplega erfitt andlega að vera lengi atvinnulaus og hér er verið að taka burt ákveðin starfsúrræði eða draga úr þeim. Það átti að falla frá þeim og í raun er ekkert annað lagt til til að koma fólki til vinnu aftur. Ég held að enginn vilji vera í þeim sporum að þurfa að ganga inn á skrifstofu sveitarfélags síns og biðja um fjárhagsaðstoð fyrir utan það að þetta er gert með einhliða ákvörðun. Ef við hugum að yngra fólkinu í þessum hópi, þeim sem eru 25 ára og eldri, þá stendur þeim ekki lengur til boða að fara í framhaldsskóla eins og var á síðasta kjörtímabili. Sá hópur þarf að fara í önnur og dýrari úrræði. Ég gef mér það að þeir sem eru búnir að vera atvinnulausir til einhvers tíma og hafa hug á því að fara í skóla hafi ekki endilega tækifæri til þess fjárhagslega að fara í dýrari skólaúrræði auk þess sem allt öðruvísi er haldið utan um fólk á slíkum stöðum en innan framhaldsskóla. Þetta er eitt af því sem hefði getað verið áfram inni sem mótvægisaðgerð ef fólk hefði viljað halda sig við það að stytta atvinnuleysisbótatímabilið.

Mig langar að koma aðeins inn á Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd í fyrra gagnrýndum það mjög og gerðum það aftur núna í umræðunni um sjóðinn að það er ótrúlega sérstakt að ekki sé búið að koma fram með frumvarp, sem væri orðið að lögum, um gjaldheimtu vegna uppbyggingar ferðamannastaða heldur setja menn sáralitlar fjárhæðir í þennan sjóð og byrja á því að skerða hann, vitandi það eins og hæstv. ráðherra ferðamála hefur sagt að það eru milljarðabeiðnir sem liggja fyrir nú þegar og eru fram undan. Eins og ég sagði í ræðu minni um fjárlagafrumvarpið þá liggur fyrir að þrátt fyrir hið vonda frumvarp sem ferðamálaráðherra hefur lagt fram, ef svo illa vildi til að það yrði að lögum, þá vitum við að það skilar okkur ekki peningum á næsta ári. Mér finnst það óábyrgt af ríkisstjórninni, stjórnarmeirihlutanum, að gera ekki ráð fyrir einhverjum fjármunum í málaflokkinn. Því hefur ekki verið svarað hvernig þeir ætla að bregðast við varðandi viðhald og uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum á komandi vori. Það hefur ekki komið fram. Það er í rauninni sorglegt ef raunin verður aftur sú eins og var í fyrra þegar það uppgötvaðist á miðju ári þegar fjárlaganefnd kom saman, í ágúst minnir mig, að farið var að greiða út peninga sem ekki var búið að samþykkja í þinginu sem komu svo inn í fjáraukalagafrumvarpið á dögunum. Það eru ólíðandi vinnubrögð. En það mun líklega gerast aftur vegna þess að ekki er hugað að sjóðnum. Þá er nú hægt að segja við þá sem tala ítrekað um aga í fjármálum að það teljast ekki óvænt útgjöld þegar vitað er um og liggur fyrir fjárvöntun hjá sjóðnum.

Þá að S-merktu lyfjunum. Eins og komið hefur fram hér í dag er val um margt en það er ekki val um það að nota lyf hjá ansi mörgum sem þess þurfa. Það er eiginlega sorglegt til þess að vita að ríkisstjórnin sjái færi í því að spara fjármuni á kostnað þeirra sem komast ekki hjá því að nota lyf. Því miður virðist einhvern veginn allt vera í þá átt. Hér er talað um að það þurfi kerfisbreytingu í heilbrigðisþjónustunni til að búa betur um hana og hún nái einhverri reisn. Í mínum huga er þetta ekkert annað en það að menn eru að gæla við einhverja einkavæðingu og það er ekki ásættanlegt. Það þarf bara meiri fjármuni inn í heilbrigðiskerfið og það vitum við öll.

Ég fékk símtal rétt áðan og þar var ég spurð: Er það virkilega svo að Allir vinna er ekki inni? Hvað gengur ríkisstjórninni til? Ég sagði: Þeir hafa alla vega bara þessi 60%. (Gripið fram í: Bara?) Það er bara. Það er þörf fyrir meira. Við erum ekki enn þá komin á þann stað að hafa ekki þörf fyrir þann hvata sem verkefnið hefur haft í för með sér. Það getur enginn neitað því, það var gríðarlegur hvati til ýmissa átaka, m.a. hjá sveitarfélögum, einkaaðilum og öðrum. Nú er verkefnið tekið töluvert niður og hvað telur ríkisstjórnin að það hafi í för með sér? Hversu mikill á þessi sparnaður að vera og hvaða hliðarverkanir hefur þetta? Verður það aftur þannig, af því að ríkisstjórninni er mjög mikið í mun að einfalda skattkerfið, að menn fari að gefa ekki upp til skatts?

Í lokin langar mig til að vísa aftur í ríkisstjórnarsáttmálann þar sem segir, með leyfi forseta:

„Gerð verður úttekt á skattkerfinu og skattkerfisbreytingum undanfarinna ára og lagðar fram tillögur til úrbóta með það að markmiði að einfalda skattkerfið, breikka skattstofna, minnka tekjutengingar og draga úr undanskotum. […] Með lækkun skatta á tekjur, vörur og þjónustu má ná fram mikilvægum kjarabótum sem útfærðar verða nánar í samráði við aðila vinnumarkaðarins og með hliðsjón af öðrum efnahagsaðgerðum …“

Aftur fara ekki saman orð og athafnir. Sú einföldun sem ríkisstjórnarflokkunum er svo tamt að tala um felst í því að hækka og lækka þrep en ekki að breyta kerfinu. Þar komum við aftur að því að það er í rauninni ekki komin fram nein heildarsýn á það hvernig kerfið á að líta út, hvort sem það er virðisaukaskattskerfið eða eitthvað annað, heldur er verið að klóra í.

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta þetta duga um frumvarpið að sinni.