144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[20:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Svo kann að vera en hins vegar sagði hv. þingmaður það í svari við athugasemdum mínum að þó að ekki mætti kveða svo fast að orði væri eigi að síður trúverðugleikanum og sjálfstæðinu stefnt í voða. Það voru þau orð sem féllu. Það er dálítið fast kveðið þegar maður sem hefur verið falinn sá trúnaður af Alþingi Íslendinga að fara með forustu í nefnd sem fjallar um efnahagsmál og skatta lýðveldisins tekur svo til orða. Í sjálfu sér væri það tilefni til sérstakrar umræðu. Enn lengri umræðu væri þó sennilega þörf til að brjóta til mergjar það sem mér þykir ákaflega merkilegt að maður sem gegnir þeirri trúnaðarstöðu skuli í reynd halda því fram að stefna Seðlabankans í samskiptum sínum við bankana leiddi til þess að hann væri að tapa 5 milljörðum á ári. Ég gat ekki betur skilið hv. þingmann en að hann væri að segja svo. Það kemur sömuleiðis fram að hann hafi ítrekað spurt eftir þessu. En er það þá svo að efnahags- og viðskiptanefnd fái ekki viðhlítandi svör frá Seðlabankanum gagnvart þessum athugasemdum?

Ég verð að segja alveg eins og er að mig rekur í rogastans yfir því að slíkur ágreiningur skuli vera á millum helsta efnahagsfræðimanns ríkisstjórnarinnar sem hér situr sem óbreyttur þingmaður og Seðlabankans. Er það virkilega þannig að Seðlabankinn reki stefnu sem fellur ekki að hagsmunum ríkisins? Ég tel að það geti ekki verið. Það hlýtur þá að vera að á móti meti Seðlabankinn það svo að til komi annars konar hagnaður og ávinningur fyrir heildarhagsmuni þjóðarbúsins. Það hlýtur þá að vera það að á meðan a.m.k. eru þessir 200 milljarðar teknir úr umferð. Það dregur úr þenslu og er væntanlega verðbólguletjandi.