144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[20:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru ágætar vangaveltur hjá hv. þingmanni. Það hafa vissulega komið ákveðnar skýringar á því hvers vegna ekki hafi verið brugðið á það ráð að beita vaxtalausri bindiskyldu eins og gert er annars staðar. Meðal annars hefur verið sagt að með því að gera það væri verið að fara út á óvissubraut, ekki væri alveg vitað hvernig viðbrögðin yrðu í bönkunum. Þá spyr maður sig: Er ekki hægt að leggja varlega af stað út á þá braut, í smáum skrefum, og finna út hvað gerist og læra af því? Það er komið eitt og hálft ár síðan hefði mátt byrja á því ferli. Menn hafa velt því upp hvort það mundi vera verra fyrir peningastefnuna, þá stefnu að halda verðstöðugleika. Ég hef fært rök fyrir því að það sé bara betra að beita vaxtalausri bindiskyldu, þá hafi bankarnir hag af því að hér sé engin verðbólga af því þeir eru með vaxtalausa peninga inni í Seðlabankanum. Þá vilja þeir alls ekki hafa verðbólgu. Þannig að þetta vinnur ekki gegn peningastefnu um stöðugleika í verðlagi, þvert á móti, þetta er notað sem tæki til þess að vinna að stöðugleika. Ég hef í raun og veru ekki fengið viðhlítandi skýringar. Menn hafa sagt að það væri ígildi skattheimtu að láta banka vera með peninga á vöxtum sem væru svo lágir að þeir væru núll. En hins vegar má færa rök fyrir því að það sé enginn heilagur réttur að fá vexti yfir núll á peninga sem eru geymdir í öruggri seðlageymslu Seðlabankans, það sé bara ákveðin þjónusta sem hann veitir og menn heppnir að þurfa ekki að borga gjald fyrir slíka þjónustu þegar ekki eru önnur betri fjárfestingartækifæri.

Ef maður tekur heildarmyndina, þá er ég ekki að leggja til og hef ekki gert að allir þessir 200 milljarðar séu settir á núll bindiskyldu, heldur kannski bara helmingurinn. Þar með gætu menn sparað helminginn af 5 milljörðum á ári. Þá mættu hinir 100 milljarðarnir vera það lausafé sem þarf að vera. Þá fá bankarnir 2,5 milljarða í vexti frá Seðlabankanum. Ekki getur það verið kölluð skattheimta (Forseti hringir.) að fá 2,5 milljarða frá Seðlabankanum á kostnað ríkissjóðs?