144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[20:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir mjög yfirgripsmikla ræðu og fróðlega. Ég hjó eftir því að í ræðunni vakti hann athygli á þeirri skoðun sinni að hann teldi að seðlabankar ættu ekki að skila hagnaði, ættu ekki að græða, en þeir eiga væntanlega ekki að sóa eða skila sérstöku tapi að hans mati heldur. Er honum kunnugt um það að frá því að við urðum fyrir efnahagsáfalli hér hefur verið myntsláttuhagnaður í Seðlabankanum upp á ríflega 30 milljarða? Það er vegna þess að hann hefur þurft að gefa út seðla, aukið seðlamagn í umferð, áhugi manna á því að halda á seðlum hefur aukist úr því að vilja halda á 12 milljörðum upp í 47 milljarða, ef ég kem með nýlegar tölur. Þetta eru 37 milljarða aukning á seðlum sem er í rauninni bara myntsláttuhagnaður hjá Seðlabankanum.

Er hann ekki sammála mér um það að þegar svona óvæntan búhnykk ber að höndum hjá Seðlabanka ætti þessi hagnaður að renna nánast ósnertur í ríkissjóð? Það er enda þjóðin sjálf sem hefur aukinn áhuga á peningum og vill hafa fleiri í umferð, en það er ekki endilega augljóst að bankinn eigi að reka sig á núlli og greiða allan þennan myntsláttuhagnað út í formi vaxta til bankakerfisins, í formi einhverra mjög hárra vaxta. Getur hann verið sammála mér um þetta?

Síðan ætla ég í seinni spurningu minni að spyrja hann aðeins nánar út í hvað hann eigi við með nauðsyn þess að vera með mikið eigið fé. Ég ætla að byrja á þessari spurningu: Hvað á að gera við myntsláttuhagnaðinn?