144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[20:51]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Til þess að reyna að hafa þetta alveg nákvæmt, þannig að ekkert misskiljist, þá var það sem ég var að segja eða vildi sagt hafa að það er ekki markmið í sjálfu sér og sérstaklega að reka Seðlabankann með tilteknum eða dúndrandi gróða. Það er í öllu falli klárlega ekki aðalmarkmiðið. Það er víkjandi markmið, algerlega víkjandi markmið borið saman við hitt sem er meginverkefni Seðlabankans; að tryggja efnahagsstöðugleika, að reyna að stýra með tækjum sínum hagkerfinu þannig fyrir sitt leyti að hér sé stöðugt verðlag og helst stöðugt gengi og fyrirsjáanleiki í þeim efnum þannig að menn treysti á það. Það er aðalmarkmiðið og markmið um góða afkomu Seðlabankans, sem er auðvitað ekki verra, það er að sjálfsögðu ekki verra þótt Seðlabankinn sé rekinn með hóflegum hagnaði, það verður að víkja fyrir hinu. Það á að víkja ef þess er þörf. Seðlabankinn má ekki hika við að beita tækjum sínum þannig að það geti verið ávísun á tap hjá honum sjálfum ef þess er þörf til að ná meginmarkmiðum sínum fram. Það er það sem ég er að reyna að leggja áherslu á.

Jú, auðvitað er það eðlilegt með myntsláttuhagnaðinn, a.m.k. að einhverju leyti, sem þó er nú alltaf gert ráð fyrir að sé einhver hluti af því sem tryggir einmitt afkomu seðlabanka. Þeir eru með þá óvenjulegu tekjulind að prenta seðla, kostar kannski 10 kr. að prenta Jónas, þannig að það er ágætis bisness að gera það út. En þá gildir auðvitað þetta sama um aðalmarkmið og víkjandi markmið.

Ég er alls ekki talsmaður þess og ég er ekki að mæla því bót, það er ekki vegna þess að Seðlabankinn fóðri bankana á einhverjum vildarkjörum, en hann verður að leggja mat á það hvað hann telur hagkerfinu (Forseti hringir.) fyrir bestu í þeim efnum, eins og annað. Ég segi alveg (Forseti hringir.) eins og er — ég ber mikla virðingu fyrir því hversu sjálfstæður í skoðunum hv. formaður (Forseti hringir.) efnahags- og viðskiptanefndar er — að ég treysti mér ekki til að taka það eitt út úr í beitingu tækja Seðlabankans og segja að hann sé að gera mistök í þessu tilviki, einhver stórfelld.