144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[20:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er nú ekki eins og hver annar ræfill dreginn upp úr svelli. Hann er sá fjármálaráðherra sem stýrði fjármálum íslenska ríkisins í gegnum langmestu áföll í efnahagssögu lýðveldisins. Menn ættu þess vegna að hlusta á hann og það hef ég gert. Ég get viðurkennt að mér fannst framan af þessari umræðu, einkum í hinni fyrstu, að fyrrverandi fjármálaráðherra væri full hlífinn gagnvart ríkisstjórninni í þessu máli. Mænuviðbragðið hjá mér er að þessi aðgerð sé vægast sagt ótímabær og stappi nærri því að vera hæpin. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon dregur yfirleitt ekki af sér í orðavali, en hann var ákaflega kurteis þegar hann sagðist telja að þetta væri tæknilega tækt. Mér finnst spurningin ekki snúast um það heldur um það hvort þetta sé trúverðugt.

Mér fannst hv. þingmaður svara sér sjálfur þegar hann benti á það að 16 milljarðar af þessum milljörðum sem með þessari, ég vil leyfa mér þrátt fyrir allt að kalla það bókhaldsæfingu, eru teknir úr eigin fé Seðlabankans og þeim á að beita til þess að borga fyrsta fjórðunginn af því sem reyndust vera tætingslegar efndir á kosningaloforði Framsóknarflokksins. Mér finnst það heldur gáleysisleg meðferð gagnvart Seðlabankanum.

Ég sagði áðan að mér væri ekki rótt eftir ræðu formanns efnahags- og viðskiptanefndar. Hann sagði þá að með rekstri Seðlabankans væri trúverðugleika hans og sjálfstæði stefnt í voða. Mér var ekkert rórra undir ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem situr í nefndinni og sagði að það væri óvissu undirorpið hvort þetta væri tímabær aðgerð, að það hefði mátt (Forseti hringir.) skoða hlutina betur af hálfu nefndarinnar og notaði orð eins og „gisk“ varðandi (Forseti hringir.) afkomu Seðlabankans á þessu ári. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst, (Forseti hringir.) herra forseti, að í svona efnum ætti hv. nefnd og forustumaður hennar að ganga dálítið varfærnislegar um.