144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[21:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan fá að spyrja hv. þingmann sem hér flutti tölu um frumvarpið út í áhyggjur hans af fjárhagslegum styrk Seðlabankans vegna greiðslu á 26 milljörðum. Hann segist ekki geta stutt það, finnst það vera ógætilegt og getur alls ekki verið með á málinu. Ég spyr hann hvort það sé ekki styrking fólgin í þessari breytingu, ef við gefum okkur það að eiginfjárstaða Seðlabankans skipti máli, sem ég held reyndar að sé ekki rétt, ég held að bankinn sé þess eðlis að hann geti búið til peninga, íslenska peninga. En það að geta kallað á 52 milljarða fyrirvaralaust, er það ekki meiri styrkur en að vera með 26 milljarða í ársreikningum? Þetta er tvöfalt hærri tala. Er það ekki styrking? Getur hann ekki fallist á það? Og er ástæða til þess að hafa áhyggjur af fjárhagslegum stöðugleika Seðlabankans ef hann hefur möguleika á að draga á 52 milljarða til viðbótar við 90 milljarða í eigið fé, plús 47 milljarða í umferð af seðlum sem bera enga vexti og má líkja við eigið fé, eru í raun bara pappírar sem hægt er að fá skipt út fyrir aðra eins pappíra ef menn vilja fá þá greidda? Bankinn hefur þannig í raun hátt í 190, 200 milljarða í eigið fé ef hann vill, er í miklu sterkari stöðu en hann hefur kannski verið í. Er hv. þingmaður ekki nokkuð sammála mér um að þetta sé gott frumvarp?