144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[21:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók það fram í ræðu minni að ég teldi ekkert hafa komið fram í meðförum málsins sem mætti túlka sem svo að það í núverandi mynd skaðaði sjálfstæði Seðlabankans eða væri skaðlegt honum. Þess vegna munum við ekki greiða atkvæði gegn frumvarpinu, en tilurð þess, aðferðafræðin og ýmsar spurningar sem upp hafa komið valda því að það er eðlilegt að stjórnarmeirihlutinn beri á því ábyrgð.

Ég er ekki viss um að hv. þingmaður geti túlkað seðlaforðann með þessum hætti, sem fé sem geti nýst. Ekki getur Seðlabankinn innkallað alla seðla og notað þá til fyrirgreiðslu. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður getur ekki horft fram hjá því að það hefur orðið þurrð í Seðlabankanum, það gerðist fyrir fáeinum árum síðan og hann þurfti endurfjármögnunar við. Aðalatriðið fyrir Seðlabankann held ég að sé að hann hafi dráttarheimildir og hann sé sjálfstæður í því að draga á þær ef hann er ekki með handbært eigið fé. Þess vegna var ég ánægður að sjá í haust að gerðar höfðu verið breytingar á frumvarpinu frá því sem það var í vor þar sem Seðlabankinn var óviss um að hann hefði fullkomið sjálfræði og sjálfdæmi um hvernig hann mundi draga á þetta fé. Það er betur útfært núna. Það er til bóta. Lykilatriðið er það, hvort sem féð er greitt inn í formi skuldabréfs eða falið í þeirri dráttarheimild sem Seðlabankinn hefur, að hann sé sjálfstæður í ákvörðunum um hvenær hann dregur á það fé og nýtir sér og hann þurfi ekki að sæta einhvers konar skömmtun eða yfirvaldi stjórnvalda um það hvenær það sé gert.