144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[21:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef aðra spurningu fyrir hv. þingmann. Nú er hv. þingmaður eflaust sammála mér um að það sé óþarfi að taka fé að láni til þess að bólstra stofnfé Seðlabankans að óþörfu og valda þannig vaxtabyrði fyrir ríkissjóð. Það er skynsamlegt að taka þessa 26 milljarða og setja inn í ríkissjóð. Þá er spurningin: Hvað er skynsamlegt að gera við peningana? Það væri hægt að nota þá til að lækka skuldir ríkissjóðs, greiða niður lán, eða til þess hugsanlega og alveg ótengt þessu að semja við bankana. Ég held að það hafi ekki verið tilgangur þessa frumvarps að búa til bókhaldsfléttu til að efna eitthvert skuldalækkunarloforð Framsóknarflokksins. Fjarri því. Mikið hefur verið rætt um það í dag að þetta sé einhver slík flétta, það er langt frá því. Ég held að þetta hafi einfaldlega blasað þannig við að menn spurðu þessarar spurninga: Hvernig eigum við að nota þessa peninga núna, 26 milljarða, hvað er það besta sem við getum gert? Er það að lækka skuldir ríkissjóðs eða að ganga til samninga við bankana og nota þetta til að ná fram betri samningum þar og lækka skuldir heimilanna? Ég held að þetta hafi verið ótengd ákvörðun. Þetta frumvarp í sjálfu sér stendur sjálfstætt. Það er skynsamlegt að draga úr stofnfé ríkissjóðs í bankanum vegna þess að það er óþarflega mikið, sérstaklega í ljósi þess sem við höfum verið að fara hér yfir, að það er skynsamlegt að hafa þennan ádrátt til að skapa ímynd og trúverðugleika, sem ég held reyndar að sé of mikið gert úr. En þar er búið að tvöfalda þennan styrk fyrir Seðlabankann. Hann lætur af hendi 26 milljarða, fær að draga á 52 til þess að viðhalda fjárhagslegum styrk. Er ekki þingmaðurinn sammála mér um að þetta gæti verið hin sennilega atburðarás?