144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

53. mál
[21:48]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirferðina um álit meiri hlutans.

Ég vil spyrja hv. þingmann vegna þess að hér er um að ræða viðbrögð við athugasemdum ESA sem bárust árið 2010. Þær athugasemdir tóku ekki með nokkru móti á stjórnsýslu þessara matsskyldu ákvarðana eða hvar þær ættu að vera staðsettar í kerfinu. Því er sérstök og afmörkuð ákvörðun þar á ferðinni, þ.e. að ákvörðun um matsskyldu sé staðsett hjá sveitarfélögunum eins og lagt er til af hendi ráðherra í því frumvarpi sem hér er til umræðu. Á fyrri stigum hafði verið lagt til að þessi verkefni væru hjá Skipulagsstofnun enda hefur þar mjög mikil þekking safnast saman um akkúrat þessi mál.

Ég vil biðja hv. þingmann að freista þess að rökstyðja ástæður þess að hann telji að þessum ákvörðunum um matsskyldu í C-flokki sé best sinnt hjá sveitarfélögunum. Við hittum allnokkra aðila á nefndarfundum og meðal annars ýmsa sem höfðu efasemdir um nákvæmlega þetta fyrirkomulag, enda eru sveitarfélögin sannarlega misvel í stakk búin til að sinna þessu verkefni. Auk þess kann að vera um hagsmunaárekstra að ræða þegar framkvæmdaraðilinn sjálfur er sveitarfélagið og er þá orðinn sá sem tekur ákvörðun um matsskyldu. Eftir sem áður þarf Skipulagsstofnun að hafa með höndum einhvers konar leiðbeiningar- og eftirlitshlutverk sem felur í raun í sér tvöfalt kerfi sem er ekki alveg í þeim anda sem ríkisstjórnin hefur talað fyrir, þ.e. að einfalda stjórnsýslu og auka skýrleika í kerfinu. Ég vil því freista þess að biðja hv. þingmann um að rökstyðja þá niðurstöðu að þessar ákvarðanir eigi heima hjá sveitarfélögunum eins og lagt er til af hálfu ráðherra og meiri hlutinn tekur undir.