144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

53. mál
[21:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að með þessari breytingu sé akkúrat verið að gera stjórnsýsluna skilvirkari og skýrari. Í nefndarálitinu segir að framkvæmdir sem falli í C-flokk 1. viðauka séu almennt ólíklegar til að vera matsskyldar þó að alls ekki sé hægt að útiloka það fyrir fram. Framkvæmdir hafa hingað til fallið utan 1. og 2. viðauka og hafa því ekki verið tilkynningarskyldar til matsskylduákvörðunar. Framkvæmdirnar hafa fyrst og fremst áhrif á sitt nærumhverfi og því má telja eðlileg rök fyrir því að ákvarðanir um matsskyldu þeirra verði á höndum sveitarfélaganna sem veita framkvæmda- og byggingarleyfi fyrir þeim.

Við gerum okkur þó grein fyrir því, eins og hv. þingmaður kom inn á, að sveitarfélögin eru eðli málsins samkvæmt misfær um að takast á við verkefnið sem þeim er falið í frumvarpinu. Stærri sveitarfélög búa yfir meiri og betri sérþekkingu en þau sem minni eru. Þess vegna gerum við sérstaklega ráð fyrir því að Skipulagsstofnun semji leiðbeiningar fyrir sveitarstjórnir þannig að þær geti sinnt þessu hlutverki á samræmdan hátt. Þá hefur stofnunin einnig eftirlit með málsmeðferð sveitarfélaganna og skal setja á fót rafrænt gagnasafn um framkvæmdir í C-flokki og leyfi fyrir þeim, samanber b-lið 2. gr. frumvarpsins.

Ég ítreka að framkvæmdir sem falla í þennan tiltekna flokk eru almennt taldar ólíklegar til þess að verða matsskyldar þótt að sjálfsögðu sé ekki hægt að útilokað það fyrir fram.