144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

fangaflutningar Bandaríkjanna.

[10:36]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst vegna lokaorða hv. þingmanns þar sem hann spurði: Hver gaf þessi fyrirheit, hvar og hvenær? er rétt að það komi fram að ég veit ekki til þess að nein fyrirheit, eins og hann lýsti, hafi verið gefin.

Árið 2007 var skrifuð skýrsla um þetta mál og veit ég til þess að utanríkisráðuneytið er aftur að fara yfir málið og rannsaka það í ljósi þeirra upplýsinga sem fram komu í fyrrnefndri skýrslu, þ.e. skýrslu Bandaríkjaþings. Sú vinna stendur yfir í utanríkisráðuneytinu og vonandi liggur niðurstaða fyrir sem fyrst, því að taka má undir það með hv. þingmanni að þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál og mikilvægt að kanna á allan þann hátt sem kostur er hvort aðstaða á Íslandi hafi á einhvern hátt verið misnotuð í þessum aðgerðum.

Þetta hefur raunar verið rætt í utanríkismálanefnd, að minnsta kosti einu sinni á undanförnum árum, en aðalatriðið er að utanríkisráðuneytið er nú þegar að bregðast við þeirri skýrslu sem hv. þingmaður spurði um.