144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[10:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar til að ræða við forsætisráðherra um alvarleg orð sem hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson lét falla í atkvæðagreiðslum í þessum sal í fyrradag. Ráðherrann vísaði til endurskoðunarferlis stjórnarskrárinnar sem tómrar vitleysu sem engu hefði skilað.

Forseti. Eftir síðasta kjörtímabil eigum við fjársjóð af tillögum að efni um stjórnarskrármál og því fjarstæða að halda því fram að starfið hafi engu skilað. Ég veit ekki betur en að hæstv. forsætisráðherra hafi skipað stjórnarskrárnefnd sem ætlað er það hlutverk að vinna áfram með það sem endurskoðunarferlið skilaði á síðasta kjörtímabili. Er sú nefnd kannski bara sýndarmennska og upp á punt?

Ég vil af þessu tilefni spyrja hæstv. forsætisráðherra:

1. Var hæstv. menntamálaráðherra að lýsa afstöðu ríkisstjórnarinnar og forsætisráðherra í fyrradag? Með öðrum orðum, telur forsætisráðherra að endurskoðunarferlið hafi verið tóm vitleysa sem engu skilaði?

2. Er hæstv. forsætisráðherra og Framsóknarflokkurinn þeirrar skoðunar að stjórnarskrá lýðveldisins þarfnist heildarendurskoðunar?

3. Hvaða væntingar hefur forsætisráðherra til starfs þeirrar stjórnarskrárnefndar sem hann skipaði fyrir ári?

Mig langar að vitna beint í hæstv. menntamálaráðherra:

„… það voru til fjármunir, t.d. til að ráðast í stórfelldar breytingar á stjórnarskrá landsins sem síðan reyndust tóm vitleysa og kostuðu hundruð og aftur hundruð milljóna og skiluðu engu og hefðu betur farið til Háskóla Íslands og háskólastigsins almennt …“

Spurningin hlýtur að vera einföld: Er þetta jafnframt afstaða hæstv. forsætisráðherra? Telur hann að nefnd sú sem hann skipaði sé tóm vitleysa eða eitthvað sem skiptir máli að standa vörð um?