144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

endurupptaka mála.

[11:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég veit að hann skilur að ég er ekki búin að setja mig ítarlega inn í þetta mál. Ég get þó upplýst það sem kann að vera þingheimi kunnugt að mikið hefur verið um það rætt hvort setja eigi inn almenna heimild í lög til handa aðstandendum látinna til að óska eftir endurupptöku. Það vill svo til að slíkt mál er á málaskrá ríkisstjórnarinnar og bíður afgreiðslu í ríkisstjórn, breyting á lögum um meðferð sakamála, þar sem slík almenn heimild er fyrir hendi.

Ég upplifi ekki almenna andstöðu við það í kerfinu að slíkt ákvæði sé fyrir hendi, alls ekki, og hef raunar ekki gert það fram til þessa, þótt ég verði auðvitað að láta það fylgja með, vegna þessarar afmörkuðu fyrirspurnar sem hv. þingmaður ber upp, að ég get ekki tekið nánari afstöðu til þess en með þeim hætti sem ég hef hér gert.