144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[11:54]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp var lagt fram undir þeim formerkjum að einfalda ætti skattkerfið og gera það skilvirkara. Mér finnst ein athyglisverðustu tíðindin í þessu frumvarpi eftir meðferð nefndarinnar vera þau að það verkefni hefur algerlega mistekist. Það er ekki verið að einfalda neitt, virðisaukaskattskerfið er áfram flókið. Við fögnum afnámi vörugjalda, það er gott skref og til einföldunar. En stærstu tíðindin í þessu eru einfaldlega þau að virðisaukaskattskerfið er áfram flókið og erfitt viðureignar og það er verið að hækka skatt á mat, það er verið að hækka skatt á menningu, nauðsynjavörur í landinu, grundvallarvöru. Það eru stærstu tíðindin í þessu og við í þingflokki Bjartrar framtíðar leggjumst eindregið gegn því.