144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hin nýja hagfræðikenning, eða félagsfræðikenning er kannski nær að segja, sem stjórnarflokkarnir eru hér að bera á borð fyrir okkur gengur út á að fólk muni bæta sér upp dýrari hollustuvöru, dýrari matvæli með því að fara að bryðja ísskápa og flatskjái í stórum stíl. Það sem verra er er að útreikningarnir byggja á þeim kviksandi að allar lækkanir sem eiga að leiða af niðurfellingu vörugjalda og lækkun efra þreps í virðisaukaskatti muni skila sér samstundis og 100% til neytenda. Kannanir og rannsóknir sýna hins vegar að það gerist ekki og þar með hrynur móverkið, þar með hrynur röksemdafærslan hjá hv. þm. Pétri Blöndal sem og útreikningarnir í greinargerð með frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra. Það hefur aldrei gerst, því miður. Hækkanirnar koma beint út í verðlag 1. janúar af því að þetta eru skattahækkanir að lögum en hitt skilar sér seint og illa (Gripið fram í.) og gerist á versta (Forseti hringir.) tíma ársins þegar í hönd fara útsölur og engin leið verður að fylgjast með því að neytendur fái þetta raunverulega til sín.