144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:23]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er ríkisstjórnin að taka ákvörðun um að hækka skatta á bækur og menningu í landinu. Hún veit að þetta mun hafa neikvæð áhrif á okkar litla markað hér á landi. Hún veit það en tekur samt þessa ákvörðun. Hér er líka verið að taka ákvörðun um að hækka skatta á almenn matvæli í landinu og þar með talið á íslensk heimili, sérstaklega þau tekjulægstu. Menn vita að þetta mun hafa mikil og erfið áhrif á mörg heimili í landinu en þeir ákveða samt að gera þetta. Hvers vegna halda menn þessu svona til streitu? Jú, það er vegna þess að þeir eru að fjármagna lækkanir á veiðigjöldum og lækkanir á sköttum til þeirra sem hæstar hafa tekjurnar í landinu. Grímulaust er hér verið að sýna forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, skattbyrði frá þeim sem mest hafa og til þeirra sem minnst hafa. Það er ekki hægt að þræta fyrir að svo sé ekki í þessu tilfelli. (Gripið fram í: Það er …) Þetta sér hver einasti maður sem hefur fylgst með málinu og kann eitthvað á reiknivél.