144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er verið að leggja virðisaukaskatt á mat og menningu, hita og rafmagn og þetta kemur sérstaklega illa við lágtekjufólk í landinu sem ver stórum hluta launa sinna í matarinnkaup. Þetta heftir líka aðgengi lágtekjufólks að menningu, með þessu dregur í sundur með þeim sem eru betur efnaðir og þeim sem berjast fyrir lífi sínu á hverjum einasta degi við að ná endum saman. Það er skammarlegt hvernig þessi ríkisstjórn hagar sér. Þetta kemur líka mjög illa niður á fólki úti á landi sem hefur ekki aðgengi að lágvöruverslunum, þá leggst virðisaukaskatturinn ofan á flutningsgjaldið plús verðið á matvörunni svo þetta þyngir enn róðurinn hjá því fólki sem býr vítt og breitt um landsbyggðina og hefur ekki Bónus á hlaðinu hjá sér. Þessi aðgerð er landsbyggðarfjandsamleg ásamt svo mörgu öðru sem hefur verið samþykkt hér á hinu háa Alþingi. Ég held að menn ættu að sjá sóma sinn í því að draga þetta til baka milli 2. og 3. umr.