144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Hér eins og víðar í þessu frumvarpi og í tillögum nefndarinnar er verið að einfalda og falla frá undanþágum sem hafa gegnsýrt virðisaukaskattskerfið og skaðað það mjög mikið. Ég gleðst yfir því. En það er ekki þar með sagt að björninn sé unninn. Ég hef lagt til í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, þar sem ég á sæti, að hún vinni ásamt ráðuneytinu að því að fara í frekari breytingar, t.d. að skattleggja alla leigu fyrir utan leigu af íbúðarhúsnæði, og þá mundum við ná til skattlagningar á laxveiði sem menn hafa dálítið talað um. Ég vil vinna að því að einfalda kerfið enn frekar, falla frá undanþágum þannig að íslenska virðisaukaskattskerfið verði skilvirkt og skili því sem það á að skila.