144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:31]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Við í Bjartri framtíð höfum stutt þær breytingartillögur og tillögur í þessu frumvarpi sem miða að því að reyna að einfalda þetta virðisaukaskattsumhverfi og breikka skattstofninn. Hér erum við komin að máli sem er ágætisdæmi um það hversu erfitt þetta verkefni er og hversu flókið það er og þarfnast miklu meiri yfirlegu. Það er út af fyrir sig jákvætt að verið er að taka inn baðstaði, eins og Bláa lónið og svoleiðis, sem eru miklir ferðamannastaðir og skila miklum tekjum og eru með mikla veltu. Þeir borga núna virðisaukaskatt í neðra þrepi. Eftir stendur þó aðgreining á baðstöðum og sundstöðum, sundlaugum. Það er skemmtilega flókið, nánast spaugilegt. Þarna fer að skipta máli hvort það er klór í vatninu eða hvort það er gegnumstreymi á vatninu eða hvort vatnið komi beint úr náttúrulegri uppsprettu og þar fram eftir götunum. Og því var ágætlega lýst fyrir nefndinni hversu flókið þetta umhverfi er fyrir stað eins og til dæmis á Laugarvatni þar sem í rauninni er verið að reka innan sömu girðingar laugar sem eru bæði sundlaugar og baðstaðir, þannig að þetta er ekkert einfalt þar. Ég held að við þurfum miklu meiri (Forseti hringir.) yfirlegu til að einfalda skattkerfið.