144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni fögnum afnámi vörugjalda og styðjum það heils hugar. Það er mikilvægur áfangi í að einfalda skattheimtu í landinu og mjög jákvætt skref. Það sem við höfum gagnrýnt í þessu máli öllu saman er að kostnaðurinn af þeirri aðgerð skuli vera borinn af auknum álögum á nauðsynjar fyrir lágtekjufólk. Það hefur verið gagnrýnisefni okkar en við höfum stutt lækkun vörugjaldsins. Á málinu er þó sá hængur að í því felst að lög um vörugjald, nr. 97/1987, eru felld niður í heild sinni, þar með líka vörugjald á sykur. Við munum því freista þess fyrir 3. umr. að koma með breytingartillögu um útfærslu á vörugjaldi á sykur og sætindi, enda er sá þáttur þessa máls eini gallinn á þeirri breytingu sem hér er gerð á vörugjaldaumhverfinu.