144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:39]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er mjög gleðilegt og er einmitt partur af áformum ríkisstjórnarinnar, leiðarljós ríkisstjórnar í öllum þessum breytingum er að gera kerfið skilvirkara og þetta með vörugjöldin gerir það. Það sem gerist líka er að vörugjöld leggjast náttúrlega á matvæli og lækka þar af leiðandi matvælaverð á móti þessari 4% hækkun á neðra virðisaukaskattsþrepinu, en það er ekki nóg. Matvælaverð mun samt hækka um 1–2%. Ef það á síðan að fara í að hækka virðisaukaskattsþrepið á næsta ári, eins og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu, úr 11% í 14% þá vantar enn þá mótvægisaðgerðir til að lækka matvælin á móti. Nú eru það meðal annars vörugjöldin en þá verður ríkisstjórnin að fara að horfa til þess að fjarlægja þennan afspyrnuóskilvirka skatt sem er tollar og kvótar á matvæli. Við verðum að horfa til þess. Hækkunin í vöruverðinu sem það veldur, skaðinn sem það veldur neytendum skilar sér ekki nema kannski að 60% til búvöruframleiðenda. Það er til miklu skilvirkari og betri leið til að gera þetta, þetta er óskilvirkur skattur og það kom fram í skýrslu (Forseti hringir.) forsætisráðherra 2006 að skilvirkasta og árangursríkasta leiðin til að lækka matvælaverð væri að afnema þessa tolla og kvóta á matvæli. Ríkisstjórnin verður að fara að horfast í augu við það.