144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér hefur meiri hlutinn valið það ráð að fresta gildistöku á breikkun virðisaukaskattsins til 1. janúar 2016. Við teljum það til bóta og styðjum þar af leiðandi þá tillögu. En það var ekki svipuðu fyrir að fara þegar á öðrum vígstöðvum var kvartað undan nánast fyrirvaralausri gildistöku þannig að við munum greiða atkvæði gegn b-lið þar sem engin aðlögun af neinu tagi er gefin varðandi þá hækkun sem þar er á ferðinni, t.d. á gistingu í ferðaþjónustunni. Það er athyglisvert að rifja upp umræður á síðasta kjörtímabili þegar ferðaþjónustan taldist þurfa að minnsta kosti heilt ár ef ekki meira til að þola hækkun á virðisaukaskatti og gistingu sem þá var verið að undirbúa, en núna er ekkert að því að skella henni á fyrirvaralaust. Þetta er öll samkvæmnin hjá núverandi stjórnarliðum.