144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Á bak við þetta gildistökuákvæði er almenn breyting. Stjórnarandstæðingar koma hingað og segja stjórnarmeirihlutann ekki samkvæman sjálfum sér, en ættu þeir ekki að líta sér nær? Þetta er sama fólkið og ætlaði að taka virðisaukaskattinn úr 7% upp í 25,5% með engum fyrirvara. (SJS: Nei, rangt.) (Gripið fram í: Rangt.) Síðan var hætt við það og þá var ákveðið að fara í 14%. Þegar það gekk ekki upp var ákveðið að flytja gildistökuna inn á mitt ár. Rétt er það að við höfum ákveðið að fella þá breytingu úr gildi en nú komum við með almenna breytingu á virðisaukaskattsþrepinu upp í 11%. Það eru engin áform um að fara upp í 14% á næsta ári, það eru engin slík áform uppi. Þetta hefur verið margútskýrt hér í þinginu [Kliður í þingsal.] og annað eru útúrsnúningar. Það er erfitt fyrir minni hlutann á þingi að sitja í salnum í dag þegar við lækkum skatta um 6 milljarða. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart en þeir gera (Forseti hringir.) þá bara hreint fyrir sínum dyrum um að (Forseti hringir.) þeir munu aldrei styðja alvöruskattalækkun.