144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[12:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta bandormsóbermi er litlu skárra en það mál sem við vorum að fjalla um áðan og að sumu leyti verra. Hér eru mjög alvarleg inngrip, t.d. í stöðu mála á vinnumarkaði sem eru framkvæmd án nokkurs samráðs við aðila þar eða sveitarfélögin. Nefna má styttingu atvinnuleysisbótatímans sem færir um 500 millj. kr. kostnað yfir á sveitarfélögin einhliða án þess að við þau hafi verið talað og í óþökk aðila vinnumarkaðarins. Það á að fella niður í áföngum greiðslur ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Það á að skerða Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Það á að hækka lyfjakostnað sjúklinga með því að taka S-merkt lyf inn í greiðsluþátttöku. Síðan vantar í þetta frumvarp átök sem framlengd hafa verið undanfarin ár eins og Allir vinna og fram undir það síðasta virtist eiga að fella niður ívilnanir vegna umhverfisvænna bifreiða o.s.frv.

Þetta er mjög óhönduglegt smíðisverk og hæstv. ríkisstjórn fær falleinkunn fyrir það.