144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:02]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Guð láti gott á vita að orð hv. þm. Péturs Blöndals varðandi rafmagnsbíla séu til einhvers hér í þessari umræðu vegna þess að það stóð til að lauma í gegnum þingið mjög afdrifaríkri ákvörðun án allrar umræðu og án vitneskju almennings um að fella niður afslátt af vörugjöldum rafmagnsbifreiða, sem er gríðarlega þýðingarmikil aðgerð sem ráðist var í fyrir nokkrum árum. Við viljum búa hér til umhverfi sem hvetur til kaupa umhverfisvænna tækja.

Þá er líka verið að taka helminginn af þeirri upphæð sem renna á til loftslagssjóðs vegna losunargjalds beint í ríkissjóð. Loftslagssjóði er ætlað að styðja við verkefni á sviði þróunarstarfs og nýsköpunar í loftslagsmálum. Það kemur ekki á óvart að þessi ríkisstjórn skuli skera þau framlög við nögl sér. Það er nefnilega þannig þegar maður horfir til frammistöðu hennar í umhverfismálum að það er algert afturhvarf til fortíðar, um 50 ár. Það er eins og sú umhverfisvakning sem orðið hefur síðastliðna hálfa öld hafi algerlega farið fram hjá forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar.