144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. 1. gr. frumvarpsins og reyndar 2. og 4. gr. líka tengjast þeirri ákvörðun ríkisstjórnar eða meiri hlutans að fella niður í áföngum greiðsluþátttöku ríkisins í jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða. Hv. þm. Pétur Blöndal sagði hér í atkvæðaskýringu fyrir atkvæðagreiðsluna að þetta frumvarp væri að sönnu ekki eins ánægjulegt og hið síðara en það kæmi til af því að ríkissjóður stæði ekki nógu vel. (Gripið fram í.) Ríkissjóður stóð nú ekki vel 2009, ekki 2010, ekki 2011, 2012, skánandi þó, en þá var ekki hróflað við greiðsluþátttöku ríkisins í þessari jöfnun á mismunandi örorkubyrði lífeyrissjóða enda voru þau mál unnin í samstarfi við þá og aðila vinnumarkaðarins. Það eru engin rök fyrir þessari skerðingu nú að allt í einu hafi menn uppgötvað það á árinu 2014 eða fyrir árið 2015 að nú standi ríkissjóður ekki nógu vel og þess vegna verði að kippa út greiðsluþátttöku (Forseti hringir.) ríkisins sem jafnar aðstöðumun lífeyrissjóðanna og (Forseti hringir.) er hluti af mjög viðkvæmu og brothættu umhverfi lífeyrissjóðanna. Ríkisstjórnin ætti að hugsa sig vel um (Forseti hringir.) áður hún fer þar inn með slíkum ófriði.