144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér eru aftur greidd atkvæði um það að draga úr greiðslum vegna örorkubyrði lífeyrissjóða. Framsóknarmenn dragast hér enn með í það að vega að þeim sem síst skyldi við hlátrasköll þingmanna Sjálfstæðisflokksins í hliðarsölum. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þann þátt málsins. En hitt er líka alvarlegt, reynsluleysi formanna stjórnarflokkanna í kjarasamningum og aðstæðum á vinnumarkaði. Í fjárlaganefnd í morgun komu forustumenn Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins og lýstu því yfir að annað árið í röð væri ríkisstjórnin að setja í uppnám stöðuna á vinnumarkaði, kjarasamningana, með vanhugsuðum aðgerðum sínum í fjárlögum. Þetta er ein þeirra aðgerða. Hún spillir því sem mest er um vert að standa vörð um á þessum dögum, frið á vinnumarkaði. (Gripið fram í.)