144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:14]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Við höfum séð í þessari atkvæðagreiðslu að það er ásetningur ríkisstjórnarinnar að skipta þjóðinni upp í þá sem vinna erfiðisvinnu og þá sem vinna ekki erfiðisvinnu á almennum markaði hvað lífeyrisréttindi varðar. Hér birtist annar ásetningur ríkisstjórnarinnar um að skipta þjóðinni upp í hópa varðandi réttindi. Ríkisvaldið á að leggja til starfsendurhæfingarsjóðsframlag samkvæmt samningum til þess að starfsendurhæfingarsjóður sinni starfsendurhæfingu gagnvart þeim sem hafa ekki verið á vinnumarkaði. Lífeyrissjóðirnir og vinnumarkaðurinn leggja inn í starfsendurhæfingarsjóð til þess að hann sinni starfsendurhæfingu þeirra sem hafa verið á vinnumarkaði.

Ef starfsendurhæfingarsjóður á að sinna þessari þjónustu fyrir þá sem hafa ekki verið á vinnumarkaði, eins og ungu fólki og þeim sem hafa verið heimavinnandi, verður framlagið frá ríkisvaldinu að koma. Það hefur ekki komið. Nú kemur eitthvað smá, en það er vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðirnir sögðu: Við ætlum ekki að sinna þjónustu við þá sem hafa ekki verið á vinnumarkaði ef við fáum ekki framlagið. (Forseti hringir.) Hvað hefði þá (Forseti hringir.) gerst og hvað mun gerast ef menn hysja (Forseti hringir.) ekki upp um sig buxurnar í þessu? Það verða til tvær þjóðir í þessu efni, (Forseti hringir.) þeir sem njóta almennilegrar starfsendurhæfingar og þeir sem njóta hennar ekki.