144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar brást þannig við harðri gagnrýni á frammistöðu sína í því sem snýr að starfsendurhæfingu að fresta gildistöku skerðinganna um hálft ár. Það er gert með þessari breytingartillögu. Að sjálfsögðu leggjumst við ekki gegn því og það er til bóta borið saman við fyrri áform. En það breytir ekki hinu að þrátt fyrir þessa breytingu á gildistöku mun að öðru leyti og í næstu atkvæðagreiðslu mun 4. gr., svo breytt, koma til atkvæða. Þar er lögfest hvernig ríkið hverfi með öllu út úr þátttöku í því að jafna mismunandi örorkubyrði lífeyrissjóða á fjórum árum. Auðvitað er það stríðsyfirlýsing. Það er það veganesti sem við erum að vara hæstv. ríkisstjórn við að fara með inn í kjarasamningana og inn í hið brothætta umhverfi sem er um lífeyrissjóðamálin í heild í landinu þar sem menn hafa í nokkur ár setið yfir því að reyna að ná einhverju landi með mismunandi réttindaávinnslu, annars vegar í opinbera kerfinu og hins vegar hjá almennu sjóðunum. (Forseti hringir.) Það sjá allir menn að þetta er (Forseti hringir.) stríðsyfirlýsing við hinn (Forseti hringir.) almenna (Forseti hringir.) hluta lífeyrissjóðanna.