144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Hér er verið að breyta reglunum þannig að þetta samkomulag eigi að gilda frá 1. júlí 2015, það er hálft ár sem er klipið af. En vandinn er sá að við skyldum alla Íslendinga til að greiða í lífeyrissjóð og þeir verða að borga inn í ákveðinn lífeyrissjóð, þeir geta ekki valið sér lífeyrissjóð. Lífeyrissjóðirnir hafa mismunandi örorkubyrði. Það er vandinn. Þess vegna finnst mér eðlilegt að atvinnurekendur sem eru með mikla áhættu af örorku greiði hærra iðgjald. (Gripið fram í.) Það er til framtíðar. Þetta er eitthvað sem menn eru að vinna í núna að semja um. Á meðan þeir samningar standa yfir tel ég eðlilegt að ríkissjóður mæti þessu með þessum hætti, en þetta tekur að sjálfsögðu mið af því að staða ríkissjóðs er ekkert sérstaklega beysin.