144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:25]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við hefjum nú atkvæðagreiðslu um tillögu ríkisstjórnarinnar um að stytta tímabil atvinnuleysisbóta úr þremur árum í tvö og hálft. Fyrir því eru færð rök sem standast ekki nokkra skoðun. Kerfi þriggja ára atvinnuleysisbóta var komið á árinu 2006 þegar ekkert atvinnuleysi var í landinu í þríhliða samkomulagi ríkisins og aðila vinnumarkaðarins. Það er fáránlegt að skýla sér á bak við batnandi atvinnuástand nú sem efnisrök fyrir því að stytta rétt til atvinnuleysisbóta. Þar við bætist að þótt leitað sé fyrirmynda í öðrum löndum þar sem réttur til atvinnuleysisbóta hefur verið styttur hefur þar ávallt verið gefinn aðlögunartími. Hér er enginn aðlögunartími gefinn. Ríkisstjórnin veitti af náð sinni áðan nýjum greinum ferðaþjónustunnar sem eru felldar undir virðisaukaskatt eftir ár með kerfisbreytingu, árs aðlögunartíma. En 1.300 manns sem missa framfærslu sína um næstu áramót og á (Forseti hringir.) næstu sex mánuðum fá engan aðlögunartíma.