144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:27]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta er á svo margan hátt slæmt mál. Ég veit ekki hvort það teljast nokkur tíðindi í þessu sérstaklega að fólk sem hefur það slæmt mun núna hafa það verra, það er kannski orðinn svolítið rauður þráður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Það er líka rauður þráður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar að hafa ekkert samráð, en það eru jú svolítil tíðindi, vegna þess að um lengd bótatímabils og aðra þætti í atvinnuleysisbótum hefur alltaf verið haft samráð við vinnumarkaðinn. Atvinnuleysisbætur eru greiddar af vinnumarkaðnum í gegnum skatt, tryggingagjald sem leggst á öll laun í landinu, algjörlega burt séð frá hagnaði og umsvifum fyrirtækjanna. Það er því alveg ótrúlegt stílbrot að hafa ekki einu sinni samráð við vinnumarkaðinn um þetta og ekkert samráð við sveitarfélögin sem munu þurfa að bera kostnaðinn. Svo er röksemdafærslan alveg ótrúleg; að vegna þess að atvinnuleysi hafi farið niður sé réttlætanlegt (Forseti hringir.) að stytta bótatímabilið. (Forseti hringir.) Það skiptir engu máli þó atvinnuleysi (Forseti hringir.) fari niður (Forseti hringir.) í þessu samhengi. Lengd (Forseti hringir.) bótatímabilsins (Forseti hringir.) fer eftir öðrum þáttum.