144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:46]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Þessi liður er fyrst og fremst áminning um alveg ótrúlegan vandræðagang. Það var samþykkt í fjárlögum fyrir árið 2013, að mig minnir, að leggja ríflegan pening í uppbyggingu ferðamannastaða út af augljósri þörf. Það var hluti af fjárfestingaráætlun þáverandi ríkisstjórnar. Björt framtíð átti aðkomu að þeirri fjárfestingaráætlun. Það var mjög skynsamlegt. Eitt fyrsta verkefni ríkisstjórnarinnar var að ýta því eiginlega öllu út af borðinu algjörlega án raka en hún áttaði sig svo á því í fjáraukalögum að víst þurfti pening í uppbyggingu ferðamannastaða þannig að þá kom sá peningur að hluta til inn aftur. Núna bíðum við eftir því að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra reyni, sem ég held að henni muni ekki takast, að gera reisupassahugmyndina vinsæla og á meðan er verið að klípa þó það af sem á að fara í uppbyggingu ferðamannastaða í gegnum gistináttagjaldið. Þetta er eintómur vandræðagangur.