144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[14:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við útskýrðum vel afstöðu okkar í gær og hvers vegna við gætum ekki staðið að afgreiðslu þessa frumvarps eða stutt það. Til þess eru of miklir veikleikar á ferðinni í málatilbúnaðinum. Í fyrsta lagi er algerlega ótímabært að færa þá tekjufærslu í bækur ríkisins sem frumvarpinu tengist þó að það sé vissulega til afgreiðslu sem slíkt í fjáraukalagafrumvarpinu. En málatilbúnaðurinn sjálfur er ekki nægjanlega vel undirbyggður, bæði hvað varðar færslur á þessum breytingum í bókhald Seðlabankans og ríkisins. Það má líka færa fyrir því nokkuð sterk rök að ótímabært sé að hrófla við eiginfjárstöðu Seðlabankans yfir höfuð í ljósi þeirra verkefna sem hann hefur með höndum og í ljósi þess að margs konar uppgjör á enn eftir að fara fram sem hafa mun áhrif á fjárhag bæði Seðlabankans og ríkisins. Nægir þar að minna á uppgjör eignasafnsins.